Íþróttamaður Reykjanesbæjar valinn á gamlársdag
Íþróttamaður og íþróttamenn Reykjanesbæjar 2012 og Íslandsmeistarar íþróttafélaga í Reykjanesbæ verða heiðraðir á gamlársdag. Hátíðin er haldin af Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB) í samstarfi við Reykjanesbæ.
Íþróttamaður Reykjanesbæjar og íþróttamenn hverrar íþróttagreinar fyrir árið 2012 verða útnefndir í hófi á síðasta degi ársins, þann 31. desember nk. Hátíðin verður haldin í íþróttamiðstöðinni í Njarðvík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Áætlað er að athöfnin taki um eina klukkustund.
Að venju verða allir Íslandsmeistarar Reykjanesbæjar innan aðildarfélaga ÍRB 2012 heiðraðir. Þeir fá afhentan verðlaunapening með áletrun um meistaratignina frá Reykjanesbæ. Árið 2008 urðu 265 einstaklingar innan ÍRB Íslandsmeistarar. Hvort það met hafi verið slegið í ár, kemur í ljós á gamlársdag. Hátíðin er opin öllum bæjarbúum og tilvalið fyrir fjölskyldur að kíkja við á þessum síðasta degi ársins.