Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 3. janúar 2000 kl. 19:49

ÍÞRÓTTAMAÐUR REYKJANESBÆJAR 1999

Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson frá Golfklúbbi Suðurnesja var valinn íþróttmaður Reykjanesbæjar 1999. Í öðru sæti varð Íris Edda Heimisdóttir Sunddeild Keflavíkur og í því þriðja Falur Jóhann Harðarosn Körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Viðurkenningarnar voru veittar í Stapa á gamlársdag. Örn Ævar er stundar háskólanám í Lousiana-fylki í Bandaríkjunum og leikur þar golf með skólaliðinu. Hann var m.a. valinn í háskólalið fylkisins á síðasta ári og var í öðru sæti sem nýliði ársins. Örn setti mótsmet á einu skólamóti þegar hann lék 18 holu hring á sex höggum undir pari. Hann kom því vel undirbúinn til leiks hér heima og var mjög sigursæll á golfmótum sumarsins. Hann varð m.a. stigameistari Golfsambandsins, í 2.sæti á Íslandsmótinu í Hafnarfirði og setti þar vallarmet og varð hann í 3.sæti í holukeppni Íslandsmótsins. Örn varð klúbbmeistari G.S. fjórða árið í röð og útnefndur kylfingur ársins af Golfsambandi Íslands. Hann keppti erlendis með landsliðinu og stóð sig vel, náði m.a. 4. sæti á opna welska mótinu. Íris Edda Heimisdóttir stóð sig einnig afburðavel á árinu. Hún sigraði 200 metra bringusund á sterku alþjólegu móti í Lúxemborg og var í kjölfarði valin til þátttöku á Smáþjóðaleikunum þar sem hún sigraði í 200 metra bringusundi, en hún var yngsti keppandinn á mótinu. Í byrjun desember náði hún þeim stórglæsilega árangri að verða Norðurlandameistari unglinga þegar hún synti 200 metra bringusund á 2:33,30 sekúndum og bætti þar með gamla stúlknametið um rúmar þrjár sekúndur. Hún varð einnig í 2. sæti í 100 metra bringusundi á sama móti. Með þessum afrekum er Íris Edda búin að koma sér í allra fremstu röð bringusundskvenna í Evrópu í sínum árgangi. Alls bætti Íris Edda 10 íslands- og stúlknamet á árinu og varð nífaldur íslandsmeistari. Falur Jóhann Harðarson stóð sig einnig vel á árinu sem leið. Hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins af KKÍ, stuðningsmenn Keflavíkur völdu hann besta leikmann meistarflokks Keflavíkur og fréttamenn Morgunblaðsins útnefndu hann einnig sem besta leikmann meistaraflokks karla. Falur átti stóran þátt í velgengni Keflavíkurliðsins sem varð hirti bæði deildarmeistara- og íslandsmeistaratitilinn árið 1999. Reykjanesbær veitti öllum viðurkenningu sem urðu íslandsmeistarar á árinu, en þeir voru 149 talsins. Hafsteinn Guðmundsson og Sigurður Steindórsson voru einnig heiðraðir fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar í gegnum árin. Sparisjóðurinn í Keflavík gaf þeim, sem voru í þremur efstu sætum í vali um íþróttamann ársins, eignabikara og farandbikar sem varðveittur er af Sparisjóðnum. Ellefu íþróttamenn sem sköruðu framúr í sinni grein fengu sérstaka viðurkenningu. Páll Jónsson var valinn skotmaður ársins, Ólafur Jón Jónsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í badmintoni, Íris Edda Heimisdóttir fyrir sund, Íris Dröfn Bjarnadóttir var keilumaður ársins, Falur Jóhann Harðarson körfuknattleiksmaður ársins, Gunnar Oddsson knattspyrnumaður ársins, Freyja Sigurðardóttir fimleikamaður ársins, Lúðvík Björnsson lyftingarmaður ársins, íþróttamaður fatlaðra var valinn Arnar Már Ingibjörnsson, Hafdís Guðmundsdóttir fékk titilinn karatemaður ársins, Auður Sólrún Ólafsdóttir hestamaður ársins og Örn Ævar Hjartarson golfmaður ársins. Stúdeó Huldu gaf ofangreindum einstaklingum hverjum um sig mánaðarkort í líkamsrækt og vill með þeirri gjöf leggja sitt af mörkum til að bærinn geti státað af afreksfólki á nýrri öld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024