Íþróttafólk Grindavíkur- myndasafn
Dröfn Einarsdóttir knattspyrnukona og Ólafur Ólafsson körfuknattleiksmaður voru kjörin íþróttakona og íþróttamaður ársins í Grindavík en kjörið fór fram í Gjánni á gamlársdag.
Þar voru einnig veitt hvatningarverðlaun en þau eru veitt þeim sem eru í 7.-10. bekk og þykja hafa skarað fram úr í sinni grein og stundað sína íþrótt af kappi.
Að auki voru veittar viðurkenningar fyrir fyrstu landsleiki, Íslandsmeistaratitla og Bikarmeistaratitla.
Stuðningsmaður ársins fékk viðurkenningu en Ólafur R. Sigurðsson hlaut þá nafnbót þetta árið. Þá voru veitt silfurmerki fyrir sjálfboðavinnu fyrir félagið, en þau Ásgerður Karlsdóttir, Jón Gauti Dagbjartsson og Ægir Viktorsson hlutu öll silfurmerki.
Tilnefndar sem íþróttakona ársins 2017:
Andrea Ásgrímsdóttir, golf.
Dröfn Einarsdóttir, knattspyrna.
Embla Kristínardóttir, körfubolti.
Katrín Ösp Eyberg Rúnarsdóttir, hestaíþróttir.
Sandra Dögg Guðlaugsdóttir, hjólreiðar.
Tilnefndir sem íþróttamaður ársins 2017:
Andri Rúnar Bjarnason, knattspyrnudeild.
Aron Snær Arnarsson, júdó.
Enok Ragnar Eðvarðsson, hestaíþróttir.
Hjálmar Hallgrímsson, golf.
Ingólfur Ágústsson, hjólreiðar.
Ólafur Ólafsson, körfubolti.
Dröfn Einarsdóttir íþróttakona ársins 2017.
Dröfn er góð fyrirmynd, innan vallar sem utan. Hún er mikilvægur
leikmaður í sínu liði og einn af lykilleikmönnum í Pepsi-deildarliði
Grindavíkur. Dröfn spilaði 21 leik í deild og bikar 2017. Hún hefur spilað með U17 og U19 ára landsliðum Íslands frá árinu 2015 en Dröfn tók þátt í fimm landsliðsverkefnum á árinu fyrir U19. ára landslið Íslands.
Ólafur Ólafsson, íþróttamaður Grindavíkur 2017.
Ólafur var lykilmaður í liði Grindvíkinga síðasta vetur sem fór alla leið í fimmta leik í
ógleymanlegri úrslitaseríu gegn KR í vor. Þó ekki hafi farið eins og til var ætlast var
Ólafur ávallt til fyrirmyndar innan vallar sem utan og var í raun andlit liðsins í aukinni
fjölmiðlaumfjöllun um liðið. Ólafur var í fjórtán manna æfingahópi A-landsliðs karla fyrir Evrópumótið í körfubolta á þessu ári og var nálægt því að komast í lokahópinn. Hann tók svo fullan þátt í verkefnum A- landsliðsins nú í haust í undankeppni heimsmeistaramótsins 2019.
Hér að neðan er myndasafn frá athöfninni, meðfygjandi myndir tók Rannveig Jónína blaðamaður Víkurfrétta.