Íþróttaárið 2014: Vonbrigði að falla í 1. deild
Erna Hákonardóttir körfuboltakona í Njarðvík gerir upp árið
Erna Hákonardóttir körfuboltakona hjá Njarðvík vonar að Njarðvíkingar komist aftur í úrvalsdeild á árinu 2015, en liðið féll í 1. deild síðasta vor. Einnig vonast hún til þess að boltaíþróttunum muni vegna betur á Suðurnesjum, en á liðnu ári gekk ekki ýkja vel í þeim greinum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2014 á Suðurnesjum?
Það sem stóð helst upp úr var hvað margir ungir leikmenn stóðu sig vel bæði í körfuboltanum og fótboltanum.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Helstu vonbrigðin að mínu mati var að við í meistaraflokki kvenna í Njarðvík féllum niður í fyrstu deild og að meistaraflokkur Keflavíkur karla í fótbolta tapaði úrslitaleik í bikarkeppni.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Þar sem ég fylgist mest með körfubolta og fótbolta þá myndi ég segja að þeir sem sköruðu fram úr voru Elvar Már Friðriksson í körfunni í Njarðvík, Elías Már Ómarsson í fótboltanum í Keflavík og Daníel Leó Grétarsson sem spilaði með Grindavík í fótbolta og er að fara út til Noregs í atvinnumennsku. Það má ekki gleyma að nefna góðvin minn hann Styrmir Gauta fyrirliða Njarðvíkur í fótbolta þar sem hann bar liðið á herðum sér og sá til þess að liðið féll ekki úr annari deildinni.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Þar sem ég fylgist lítið með öðrum íþróttum en körfu og fótbolta veit eg lítið um árangur í öðrum íþróttum
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég vona að boltaíþróttum á Suðurnesjum muni ganga betur en á liðnu ári og við í köfuboltanum í Njarðvík komum okkur aftur upp í Úrvalsdeild.