Íþróttaárið 2014: Gaman að fylgjast með atvinnumönnum okkar
Rafn Markús Vilbergsson þjálfari Víðismanna gerir upp árið í íþróttum
Rafn Markús Vilbergsson þjálfari Víðismanna í fótboltanum, var að vonast eftir betri árangri knattspyrnuliða af Suðurnesjum þetta árið. Hann lofar sérstaklega frammistöðu Njarðvíkingsins Ingvars Jónssonar sem var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins í Pepsi deildinni. Hann segist spenntur fyrir því að fylgjast með öllum þeim Suðurnesjamönnum sem leika erlendis í boltagreinunum á árinu 2015.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2014 á Suðurnesjum?
Frammistaða Ingvars Jónssonar í fótbolta, Elvars Friðrikssonar í körfubolta og Ástrósar Brynjarsdóttur í taekwondo stendur upp úr að mínu mati á Suðurnesjum þetta árið. Hjá okkur Víðismönnum stendur upp úr góður árangur á heimavelli í sumar og bikarleikurinn gegn Pepsi-deildarliði Vals sem endaði með 0-1 sigri gestanna með umdeildu marki fyrir framan fjölda áhorfenda í Garðinum.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Ég var að vonast eftir betri árangri Suðurnesjaliðanna í karla- og kvennafótboltanum í ár. Eflaust eru mestu vonbrigðin hjá Sandgerðingum sem þurftu að horfa á liðið sitt fara niður um deild.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Frammistaða Njarðvíkingsins Ingvars Jónssonar í marki Íslandsmeistara Stjörnunnar. Ingvar fæddist ekki með silfurskeið í munni heldur hefur hann haft mikið fyrir því, með mikilli elju og góðri leiðsögn, að komast þangað sem hann er kominn sem íþróttamaður.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Fjölbreytnin í íþróttalífi á Suðurnesjum er mikil. Mikið hefur verið að gerast hjá 3N - þríþrautadeild UMFN. Uppgangur bardagaíþrótta hefur verið athyglisverður auk þess sem fimleikadeild Keflavíkur eignaðist sinn fyrsta Íslandsmeistara í áhaldafimleikum í ár.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Áfram verðum gaman að fylgjast með Elvari Friðrikssyni í Bandaríkjunum, Arnóri Ingva Traustasyni í Svíþjóð, Samúel Kára Friðjónssyni í Englandi sem og nýju atvinnumönnunum okkar frá Suðurnesjum þeim, Ingvari Jónssyni og Daníel Leó Grétarssyni í Noregi og Kanada-ævintýrinu hjá Óskari Erni Haukssyni. Aðstaðan sem íþróttamönnum á Suðurnesjum er boðið upp á er heilt yfir framúrskarandi. Ég tel að með góðri aðstöðu og marvissri uppbyggingu á ungum íþróttamönnum höldum við áfram að skila góðum einstaklingum og framúrskarandi íþróttamönnum. Við Suðurnesjamenn setjum markið alltaf hátt og vonandi verður árið 2015 gæfuríkt fyrir íþróttafólk á Suðurnesjum en umfram allt skemmtilegt.