Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íþróttaárið 2014: Ár Njarðvíkinganna Elvars og Ingvars
Þriðjudagur 30. desember 2014 kl. 11:20

Íþróttaárið 2014: Ár Njarðvíkinganna Elvars og Ingvars

Knattspyrnumaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson segir árið 2014 í sportinu á Suðurnesjum hafa verið eign Njarðvíkinga. Þá sérstaklega þeirra Ingvars Jónssonar og Elvars Más Friðrikssonar. Honum er ofarlega í huga það úrval íþrótta sem er í boði á svæðinu og glæsileg frammistaða unga fólksins á árinu.

Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2014 á Suðurnesjum?

Það sem stóð upp úr að mínu mati er frammistaða ungra leikmanna í boltagreinum, bæði í karla og kvennaflokkum. Elvar í Njarðvík, stelpurnar í körfunni í Keflavík, Jón Axel Guðmundsson í körfunni í Grindavík og Elías Már hjá okkur í fótboltanum í Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?

Vonbrigðin eru brösugt gengi Suðurnesjaliðanna í karlafótboltanum. Við ætluðum okkur aðeins ofar í deildinni og svekkjandi að tapa úrslitaleiknum gegn KR. Grindavík náði sér ekki á strik, Njarðvík og Reynir í stöggli allt tímabilið og Víðir ætluðu sér eflaust stærri hluti.

Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?

Þetta var ár Njarðvíkinganna Ingvars Jónssonar og Elvars Friðrikssonar. Ingvar var stórkostlegur með Stjörnunni í allt sumar og er kominn út í atvinnumennsku og í landsliðshópinn. Elvar var frábær með Njarðvík og virðist vera að halda því bara áfram úti í Brooklyn. Hann er skólabókardæmi um að það er allt hægt ef þú leggur hart að þér. Frábær íþróttamaður.

Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?

Ég er vitanlega mjög litaður af boltagreinunum, þekki ekki nægilega vel til sérstakra afreksmanna í öðrum greinum. Ég tek samt eftir því að hvað mikið er í boði fyrir krakka. Það er eitthvað fyrir alla sem er meiriháttar. Mér finnst það eiginlega standa uppúr, s.s. úrvalið af íþróttum á svæðinu. Ég fór á jólasýningu fimleikadeildar Keflavíkur og þar kom mér skemmtilega á óvart hvað það eru margir strákar að æfa fimleika. Þeir eru líka orðnir mjög góðir, það kæmi mér ekki á óvart að við ættum eftir að heyra meira af þeim á næstu árum.

Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?

Ég sé fram á skemmtileg ár á næsta ári. Við Keflvíkingar stefnum að sjálfsögðu hátt í fótboltanum eins og alltaf. Síðan held ég að Víðismenn eigi eftir að taka Reynismenn nokkuð létt í „El Clasico“ viðureignunum í 3. deildinni.