Íþróttaárið 2014: Áfall að klikka á ögurstundu
Vogamaðurinn Marteinn Ægisson fer yfir íþróttaárið 2014
Marteinn Ægisson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar Vogum, fer yfir íþróttaárið 2014 á Suðurnesjum. Vogamenn eignuðust landsliðsmann í Snóker á árinu og voru nærri því að komast upp um deild í fótboltanum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2014 á Suðurnesjum?
Grindavík vann bikararinn í körfunni. Keflvíkingar fóru í bikarúrslitin í fótboltanum. Elvar Friðriksson heldur áfram að bæta sig og er að gera góða hluti í Bandaríkjunum. Það hefur verið gaman að fylgjast með hversu margir ungir leikmenn eru að koma upp bæði í knattspyrnunni og körfuboltanum. Hvað okkur Vogamenn snertir þá gerðum við góða hluti á þessu ári. Meistaraflokkur Þróttar náði sínum besta árangri frá upphafi þegar við fórum alla leið í undanúrslitin í 4. deildinni, þar fengum við góða reynslu sem sem fer í bankann. Einnig hefur getraunastarfið fest sig í sessi hjá okkur Vogamönnum. Bara Grindavík og Keflavík eru stærri en við á Suðurnesjum.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Grindvík, Njarðvík og Víðir ætluðu sér stærri hluti. Það var leiðinlegt að sjá Reynismenn fara niður. Við settum stefnuna á sigur í 4. deildinni, mikið áfall að klikka á ögurstundu. En það sagði enginn að þetta yrði auðvelt og við erum í uppbyggingarstarfi sem tekur tíma.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Samkvæmt fréttum þá er Ástrós ein sú efnilegasta í heiminum í taekwondo. Elvar er að gera frábæra hluti eins og áður hefur komið fram. Svo má ekki gleyma Loga Gunnars körfuboltamanni sem tók þátt í ævintýri körfuboltalandsliðsins og er að fara á Eurobasket á næsta ári.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Það er eitthvað sem segir mér að flottir hlutir séu að fara gerast í júdóinu í Vogum. Við Vogamenn höfum eignast marga íslandsmeistara í þeirri grein „Maggi Hauks faðir jódósins í Vogum,“ á hrós skilið fyrir sitt framlag síðustu tuttugu árin.
Annars vorum við Þróttarar úr Vogum að eignast landsliðsmann í snóker á dögunum þegar Nonni bróðir tryggði sig inná norðurlandamótið sem haldið verður í Osló í Noregi. Ágætt að koma því á framfæri að hann er ekki Keflvíkingur eins og þið sögðuð frá í frétt um afrekið. Hann er hreinræktaður Vogamaður sem elti konuna sem hann elskar alla leið til Keflavíkur.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?Það verður áfram í blóma vegna þess að grasrótin er svo öflug. Við Þróttarar setjum stefnuna á sigur í 4. deildinni. Einnig látum við okkur dreyma um að komast sem lengst í bikarnum og gaman væri að fá Pepsí-deildarlið á Vogabæjarvöll.