Íþróttaárið 2013: Suðurnesin eiga alltaf mikið af flottu íþróttafólki
María Ben Erlingsdóttir gerir upp árið
Körfuknattleikskonan María Ben Erlingsdóttir segir titla Suðurnesjaliðanna í körfuboltanum eftirminnilegasta á árinu sem var að líða. María sem er uppalin í Keflavík leikur nú með Grindavík í Domino´s deildinni þar sem hún hefur átt gott tímabil. María fór yfir íþróttaárið 2013 með Víkurfréttum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Það er hægt að telja upp margt sem stendur uppúr en þar sem ég fylgist mest með körfunni þá finnst mér standa uppúr að Keflavík varð Íslands- og bikarmeistari kvenna og svo urðu Grindvíkingar Íslandsmeistarar í karlaboltanum.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Það eru engin vonbrigði sem ég man eftir og geta einstaklingar og lið alltaf gert betur á nýju ári.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Mér finnst við eiga mikið af flottu íþróttafólki en þeir sem hafa staðið uppúr að mínu mati eru Elvar Már (körfubolti), Pálína (körfubolti), Arnór Ingvi (fótbolti), Samúel Kári (fótbolti), Ásdís og Bjarni (taekwondo).
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Þar sem ég fylgist mest með körfunni þá finnst mér karfan hérna á Suðurnesjum koma sterk inn og Suðurnesjaliðin að standa sig vel í deildinni. Einnig hef ég séð mikið fjallað um taekwondo og mér sýnist þau hafa staðið sig vel á þessu ári.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Suðurnesin eiga alltaf mikið af flottu íþróttafólki og ég tel að þau eiga eftir að standa sig vel og það verður gaman að fylgjast með þessa flotta fólki sem við eigum.