Íþróttaárið 2013: Stemning hjá Þrótturum
Nú er árið senn á enda og því ekki seinna vænna en að gera upp árið 2013 í íþróttum á Suðurnesjum. Að venju voru hægðir og lægðir í heimi íþrótta á svæðinu. Við fengum nokkra vel valda einstaklinga til þessa að gera upp árið með okkur og munum við á næstu dögum birta þeirra sýn á íþróttaárið 2013. Marteinn Ægisson er formaður Knattspyrnudeildar Þróttar sem rekur meistaraflokk félagsins. Marteinn segir árið hafa verið blómlegt á árinu og að víða sé gott uppbyggingarstarf í gangi innan félaga.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Það fyrsta sem mér dettur í hug eru Íslandsmeistaratitlarnir í körfunni. Grindvíkingar vörðu titilinn hjá körlunum og Keflavíkurstúlkurnur unnu enn einu sinni. Íris Ósk varð Norðurlandameistari unglinga í 200 m baksundi. Íþróttalífið á Suðurnesjum hefur alltaf verið blómlegt og verður það áfram bæði í hóp- og einstaklingsgreinunum. Hvað okkur Þróttara snertir og það sem stendur uppúr hjá okkur þá var það þessi stemning sem skapaðist í kringum meistaraflokkinn í sumar. Þrátt fyrir að vera í neðstu deild vorum við að fá í kringum 200 manns á heimaleiki liðsins og einnig voru Vogabúar duglegir að elta okkur út á land. Ég held það hafi spilað inní að við slógum út lið Víðismanna úr bikarnum um vorið og stemningin hafi komið með þeim sigri.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Það er ekki hægt að nefna eitthvað sérstakt dæmi held ég. Þau lið í hópgreinunum skiluðu titlum sem ætluðu sér það og mér fannst önnur lið vera í uppbyggingarstarfi og reyna byggja upp sín lið á ungum strákum. Nefni sem dæmi Njarðvík í körfunni og Keflavík og Víðismenn í fótboltanum. Við Þróttarar vorum grátlega nærri okkar markmiðum sem var að komast í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Við töpuðum lokaleiknum þar sem jafntefli hefði dugað okkur. Það voru vonbrigðin okkar á þessu ári. En við erum þrátt fyrir það erum við staðráðnir í því að koma sterkir til baka árið 2014 og þegar við horfum til baka þá var þetta virkilega skemmtilegt sumar.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Írís Ósk í sundinu og Arnór Ingvi Traustason knattspyrnumaður fór til Svíþjóðar eftir tvö frábær sumur með Keflavíkurliðinu, verð einnig að nefna Elvar Friðriksson leikmann Njarðvíkur í körfubolta. Besti íslenski leikmaður deildarinnar, 25 stig og 8 stoðsendingar að meðaltali í hverjum leik.
Við eigum svo mikið af íþróttafólki. Ungu stelpurnar og strákarnir í Keflavík og Njarðvík hafa komið sterk inn í körfunni. Sundið, júdóið og golfið, við eigum afreksfólk í flestum greinum hér á Suðurnesjum.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Taekwondodeild Keflavíkur hefur verið að koma sterk inn og það nafn sem ég hef mest tekið eftir er Bjarni Júlíus Jónsson. Júdódeild Njarðvíkur með Gumma í farabroddi hefur verið að gera gott mót og í sömu andrá verð ég auðvitað að nefna jódóhöfingjann Magga Hauks en hefur hann þjálfað í Vogunum í einhver 18 ár, geri aðrir betur.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Þar sem ég er mest í kringum fótboltann þá fylgist ég töluvert meira með þeirri grein en öðrum íþróttagreinum. En það verður gaman að fylgjast með gamla stórveldinu Víðir Garði undir forystu Rafns Markúsar Vilbergssonar næsta sumar. Njarðvíkingar hafa verið að fá unga leikmenn frá Keflavík og það verður einnig gaman að fylgjast með Gumma Steinars stýra þeim grænu. Grindvíkingar verða ofarlega í sinni deild. Reynismenn eiga eftir að byrja vel eins og þeir eru vanir og svo þegar það fer að nálgast ágúst þá er bara vonandi að þeir haldi það út. Keflvíkingar verða áfram með þessa ungu stráka. Þeir geta vel við unað ef þeir enda um miðja deild. Grindavíkurstelpur fara vonandi upp næsta sumar. Voru ekki langt frá því í ár. Við Þróttarar setjum stefnuna á að vinna okkur sæti í 3. deildinni og halda vel utan um starfið í kringum félagið. Það eru mikill ferskleiki búinn að vera í kringum félagið á þessu ári. Félagið bíður uppá knattspyrnu, júdó, körfubolta og sund. Einnig er mjög öflugt foreldrafélag í félaginu sem hjálpar félaginu að vaxa og dafna. Ekki má gleyma félagskaffinu á laugardögum þar sem allir eru velkomnir. Að öllum öðrum félagsmönnum, stuðningsmönnum og velunnurum ólöstuðum ber starf hinna fjölmörgu sjálfboðaliða félagsins við rekstur félagsins og fjáraflanir af ýmsu tagi hæst árið 2013. Án þeirra framlags væri ekki unnt að halda uppi svo öflugu íþrótta- og menningarstarfi, sem við Þróttarar stöndum fyrir.