Íþróttaárið 2013: Íslandsmeistaratitillinn eftirminnilegastur
Sverrir Þór Sverrisson gerir upp árið í sportinu
Körfuknattleiksþjálfarinn Sverrir Þór Sverrisson átti sannarlega gott ár þegar kemur að íþróttunum. Hann stýrði Grindvíkingum til Íslandsmeistaratitils í körfubolta karla en þar var liðið að vinna annað árið í röð. Sverrir stendur nú í ströngu ásamt Grindvíkingum í Domino´d deildinni þar sem stefnan er sett á þriðja titilinn í röð. Sverrir gaf sér þó tíma til þess að hlaupa á hundavaði yfir íþróttaárið 2013 á Suðurnesjum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Það sem stendur upp úr finnst mér vera Íslandsmeistaratitill okkar Grindvíkinga í körfuboltanum. Keflavíkurstelpurnar sem unnu tvöfalt í körfunni og sundstelpan (Íris Ósk Hilmarsdóttir) sem varð Norðurlandameistari.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Vonbrigði finnst mér að sjá ekki fótboltann sterkari á Suðurnesjum, hefði viljað sjá einhver liðin komast upp um deild. Það verður vonandi bara í sumar sem það gerist.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Hugsandi um einhvern sem skaraði fram úr þá kemur Arnór Ingvi Traustason knattspyrnumaður upp í hugann, spilaði mjög vel með Keflavík og 21-árs landsliðinu og toppaði gott ár með því að fá atvinnumannasamning í Svíþjóð.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Ég fylgist kannski ekki nógu vel með öllum íþróttum þannig að ég er ekki viss um hvort einhver af þeim greinum sem ég fylgist ekki vel með hafi komið sterk inn á þessu ári, en ég er nokkuð viss um að komandi ár verði mjög gott íþróttaár á suðurnesjum.