Íþróttaárið 2013: Gróska á mörgum vígstöðvum
Gott ár í kraftlyftingum
Sindri Freyr Arnarson lyftingakappi hjá Massa segir árið hafa verið gott fyrir íþróttafólk á Suðurnesjum. Hann fór sjálfur á Evrópumót unglinga í kraftlyftingum í Tékklandi í vor þar sem hann stóð sig með prýði. Hann saknar þess að sjá ekki keppni um sterkasta mann Suðurnesja en segir gaman að sjá mikla grósku í mörgum greinum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Árið í heildina var mjög gott fyrir Suðurnesjafólk í flestum íþróttagreinum, má þar nefna Íslandsmeistaratitil Grindavíkur í karlaflokki og Keflavíkur í kvennaflokki í körfunni. Fjöldi meta hafa verið slegin og fjölmörg verðlaun unnist á mörgum vígstöðvum, þar á meðal í kraftlyftingum, taekwondo, sundi, júdó, körfubolta o.fl.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Leiðinlegt að geta ekki séð Stulla í Massa spreyta sig áfram í Sterkasti maður Suðurnesja þar sem mótið var fellt niður vegna slæmrar þátttöku. Sögur segja að Stulli sé í fullum undirbúningi fyrir Páskamótið í fitness 2014.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Það eru verulega margir sem hafa staðið sig frábærlega á íþróttaárinu 2013 en þau sem fönguðu mestu athygli mína voru þau Elvar Már Friðriksson fyrir stórkostlega spilamennsku í körfunni með Njarðvík og Ástrós Brynjarsdóttir fyrir frábæra frammistöðu á bikarmótum í taekwondo og Norðurlandameistaratitilinn sem hún eignaði sér á árinu.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Taekwondo og Júdó hafa komið sterkt inn með fjölda verðlaunahafa, titla og met.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Íþróttaárið 2014 verður eflaust mjög gott ár. Ég tel að það séu margir með ákveðin markmið í bæði hóp- og einstaklingsbundnum íþróttum og það er hlutverk okkar allra að styðja við bakið á hvert öðru. Eins og ávallt vantar ekki keppnisandann á Suðurnesjunum og er gaman að sjá hversu mikil gróska er í mörgum íþróttadeildum og verður áhugavert að fylgjast með komandi ári.