Íþróttaárið 2013: Fótboltinn ekkert spes á Suðurnesjum
Arnór Ingvi fer yfir árið 2013
Knattspyrnumaðurinn Arnór Ingvi Traustason átti frábært ár í Pepsi deildinni þar sem hann var valinn besti ungi leikmaðurinn. Hann leggur land undir fót og leikur í Svíþjóð á nýju ári með úrvalsdeildarliðið IFK Norrköping. Arnór fór yfir íþróttaárið 2013 á Suðurnesjum með VF.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Kvennkarfan hjá Keflavík gerði mjög gott mót. Svo var sundfólkið ekkert síðra. Þau sópuðu upp helling af verðlaunum og eru búin að gera það lengi vel.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Þar sem að ég er sjálfur fótboltamaður þá fannst mér fótbolta tímabilið ekkert rosalega spes hjá Suðurnesjaliðinum. Við eigum alveg helling af góðum ungum fótboltastrákum og spurning um að reyna nýta það betur. Hann Heiðar er nú orðinn yfirþjálfari hjá Keflavík og hann er strax byrjaður að leggja gífurlegan metnað í þetta og hann fær hrós fyrir sín vinnubrögð og mun örugglega skila sér öll sú vinna sem hann mun leggja í þetta.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Það er Elvar Már Friðriksson, enginn spurning. Það eru eflaust fleiri mjög góðir íþróttarmenn/konur hérna á Suðurnesjum en ég verð að nefna hann. Hann er svo metnaðarfullur og jarðbundinn strákur sem leggur hart að sér. Því sem þú sáir það uppskerðu og það er einmitt að gerast hjá honum núna.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Já, taekwondo. Þau stóðu sig rosalega vel og eiga hrós skilið fyrir sín vinnubrögð og frammistöðu. Svo er alltaf hægt að nefna sundið líka en þau eru bara svo gífurlega sterk að þau vinna á hverju einasta ári.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Vonandi sem best. Suðurnesjamenn eiga rosalega mikið af flottu íþróttafólki og tilvonandi stjörnum í sínum íþróttum. Svo ég tel að árið 2014 verði okkar ár!