Íþróttaárið 2012: Rimma Guðjóns og Jóhanns eftirminnileg
Jón Ragnar Ástþórsson er formaður knattspyrnudeildar Víðis í Garði. Hann fór yfir íþróttaárið 2012 með Víkurfréttum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?
Það var kannski ekki neitt sérstakt árangurslega sem stendur uppúr og engin lið sem komu mikið á óvart. Persónulega er ég stoltur af strákunum í Víði sem eru með ungt lið sem unnu sinn riðil en vantaði herslumuninn til að komast í 2. deild.
Það sem stendur kannski helst uppúr er eftirminnileg rimma Garðmannanna Guðjóns Árna og Jóhanns Birnirs. En þeir eru báðir heiðursmenn og leystu það auðvitað farsællega þannig að það má hlæja af því eftirá. Einnig var frábært hjá Sverri Þór vini mínum og stelpunum hans í Njarðvík að hampa Íslandsmeistaratitlinum mjög óvænt.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Það voru vissulega vonbrigði fyrir okkur í Víði að detta út í vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum 3. deildar. Við getum verið ánægðir með þann árangur sem náðist en þegar maður nær einu markmiði setur maður ný og vill alltaf ná aðeins lengra.
Flest þau lið og aðilar sem ég hef náð að fylgjast með á árinu voru nokkurn veginn á pari held ég og því engin önnur vonbrigði sem koma upp í hugann.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Ég er auðvitað mjög upptekinn af fótbolta og því kemur fyrst uppí hugann Arnór Ingvi Traustason sem var leikmaður Keflavíkur framan af sumri. Hann var algjörlega frábær fyrir þá og þeir söknuðu hans mikið eftir að hann hvarf á braut í atvinnumennskuna. Hann á eftir að ná langt ef hann heldur rétt á spilunum.
Svo er ég nú alltaf að reyna að gera Suðurnesjamann úr Gunnari Nelson frænda mínum, enda er karl faðir hans alinn hér upp og sjálfur bjó hann hér til skamms tíma. Hann átti auðvitað frábært ár, er enn taplaus og skrifaði undir samning við UFC sem er auðvitað stórkostlegt afrek.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Mér dettur helst í hug fréttir af því að Suðurnesjamenn hafi eignast unglingalandsliðsmenn í handbolta svo að starfið það virðist vera að bera ávöxt. Einnig man ég eftir að hafa heyrt um góðan árangur hjá Júdódeild Njarðvíkur og Taekwondo-deild Keflavíkur hafa náð eftirtektarverðum árangri.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég er sannfærður um að við höldum áfram að bæta okkur á öllum sviðum. Víðismenn ætla að halda áfram að byggja ofan á síðasta ár þar sem ungu strákarnir eru reynslunni ríkari. Sama á sjálfsagt eftir að gilda með Keflavíkur liðið sem er virkilega skemmtilegt og líklegt til að bæta sig. Reynismenn ætla sér greinilega mikið og eru tæplega sáttir með endirinn á sínu tímabili. Sama má kannski segja um Njarðvík. Grindvíkingar eru sjálfsagt í sárum og vilja eflaust komast beint upp aftur sem gæti reyndar orðið erfitt. Þróttur í Vogum er „work in progress“ og ég veit að Gunni og Matti ætla að halda áfram þvi góða starfi sem þar er unnið og gera betur á nýju tímabili. Ég hef fulla trú á þvi að það takist.
Af öðrum íþróttum veit ég að það er mikill hugur í Keflavík í Körfunni og þeir ætla sjálfsagt að bæta sitt gengi á komandi ári. Stelpurnar eru auðvitað að gera frábæra hluti og þurfa bara að klára það með titli, sem ég er sannfærður um að þær geri. Njarðvík vilja sjálfsagt sjá betri árangur hjá sínum liðum og eiga því væntanlega eftir að leggja hart að sér sem á vonandi eftir að skila sér.
Svo skulum við bara vona að annað íþróttastarf haldi áfram að blómstra og greinar sem hafa ekki verið áberandi haldi áfram að vaxa. Þetta svæði þarf á allri þeirri jákvæðu umræðu að halda sem möguleg er. Árangur og uppvöxtur íþróttagreina og fólks er svo sannarlega jákvæð og þvi eigum við að hlúa að því og styrkja á allan þann hátt sem við getum.