Íþróttaárið 2012: Hæðir og lægðir hjá Grindvíkingum
Jón Gauti Dagbjartsson er einn helsti stuðningsmaður Grindvíkinga og hann upplifði því hæðir og lægðir enda féllu hans menn í fótboltanum en unnu titla í körfuboltanum á árinu.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?
Klárlega endurkoma allra helstu titla í körfunni heim á Suðurnesin, sér í lagi náttúrlega Íslandsmeistaratitillinn sem kom til Grindavíkur, það var algert æði.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Vonbrigði ársins hljóta að vera fall minna manna úr Pepsí-deildinni í fótbolta. Ég var nú örlítið bjartsýnni en það þegar ákveðinn maður var ráðinn til starfa, en ég hafði víst rangt fyrir mér.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Þarna á ég dálítið bágt því ég er nefnilega voðalega fastur í boltaíþróttum. Ég segi því afburða flottur árangur Njarðvíkurkvenna í körfunni. Verð þó náttúrlega að bæta við að paradísin Grindavík lagði sitt í púkkið.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Þarna myndi ég nefna júdóið og þessar bardagaíþróttir. Þekki samt lítið til í þessum geira og veit minna, eina sem ég veit að maður myndi ekki vilja abbast upp á sum af þessum tröllum.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég get ekki séð annað en að okkar fólk haldi áfram að gera jafn góða og betri hluti á komandi ári. Við Suðurnesjafólk erum enn og aftur sterk í körfunni og munum landa góðum slatta af dollum þar sem skipta máli. Spennandi verður að fylgjast með ungum Keflvíkingum í fótboltanum og ég tala nú ekki um mína menn, Grindavík í fyrstu deildinni, það verður mikið konfekt. Svo vona ég náttúrlega að aðrar íþróttagreinar dafni bara vel og öllum gangi sem allra best. Svo mega Man. Utd alveg vinna titilinn þó svo að það tengist Suðurnesjunum ekki beint.