Íþróttaárið 2012: Frábært ár í Taekwondo
Rut Sigurðardóttir er yfirkennari taekwondo deildar UMFG og einnig er hún kennari í taekwondo deild Keflavíkur. Hún er stolt af árangrinum hjá Taekwondo-fólkinu enda frábært ár að baki hjá þeim.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?
Mér fannst standa upp úr frábært gengi hjá bardagaíþróttafélögum á Suðurnesjum. En þess má geta að Taekwondo deild Keflavíkur vann öll mót á árinu og náði takmarki sínu að ná 1000 verðlaunum í 12 ára sögu félagsins og það 36 verðlaunum betur. Taekwondomaður og -kona Íslands í kjörinu hjá ÍSÍ voru bæði frá Taekwondo deild Keflavíkur, þau Kristmundur Gíslason og Ástrós Brynjarsdóttir.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Að Ástrós Brynjarsdóttir hafi ekki verið valinn íþróttamaður Keflavíkur þar sem hún hefur náð einstökum árangri sem erfitt er að leika eftir. Björn Lúkas Haraldsson var þó valinn íþróttamaður Grindavíkur en það er mikill sigur. Það eru alltaf vonbrigði þegar íþróttir standa ekki á jafnréttisgrundvelli, hvort sem um er að ræða viðurkenningu fyrir árangur, umfjöllun, styrki, aðstöðu og annað.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Að mínu mati hefur Björn Lúkas Haraldsson skarað fram úr með einstökum hætti og það í þremur íþróttagreinum (taekwondo, judó og brasilísku jiu jitsu). Hefur hann unnið til fjöldann allan af verðlaunum bæði í unglinga og fullorðinsflokkum. Einnig hefur Ástrós Brynjarsdóttir eins og áður hefur komið fram unnið einstök afrek í taekwondo á þessu keppnisári þ.e. unnið til 12 gullverðlauna sem er ótrúlegur árangur.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Taekwondo, Júdó sem áttu góðu gengi að fagna og fengu nýja æfingaaðstöðu að Iðavöllum 12. Taekwondo urðu bikarmeistarar, tvöfaldir Íslandsmeistarar og sigruðu öll innlend mót. Judodeild UMFN sigraði þá Íslandsmót ungmenna í brazilian jiu jitsu.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég sé íþróttafólk af Suðurnesjum halda áfram að standa sig frábærlega, enda eigum við mikið að efnilegu og góðu íþróttafólki.