Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íþróttaárið 2011: Óskar í A-landsliðinu eftir nokkur ár
Mánudagur 2. janúar 2012 kl. 14:35

Íþróttaárið 2011: Óskar í A-landsliðinu eftir nokkur ár

Þorsteinn Gunnarsson, íþróttaáhugamaður og grindvískur Eyjamaður að eigin sögn, svaraði nokkrum spurningum Víkurfrétta varðandi íþróttaárið 2011. Hann minnist þess sérstaklega með hlýhug þegar Grindvíkingar björguðu sér frá falli í úrvalsdeild karla í knattspyrnu með ævintýralegum hætti í lokaumferðinni. Hann telur líklegt að Óskar Pétursson gæti orðið landsliðsmarkvörður Íslands innan skamms.

Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalífinu á Suðurnesjunum árið 2011?
„Í mínum huga er það leikur Grindavíkur og ÍBV í úti í Eyjum í lokaumferð Pepsideildar karla þegar Grindavík vann afar óvæntan útisigur 2-0 og tókst þar með að halda sæti sínu í deildinni. Þetta var í raun og veru alveg magnað afrek því allir voru búnir að afskrifa Grindavík og Eyjamenn urðu að ná stigi til að gulltryggja Evrópusæti, þannig að mikið var í húfi fyrir bæði lið. Ég var hins vegar manna glaðastur, sem grindvískur Eyjamaður, að Grindavík hélt sæti sínu og þrátt fyrir tapið komst ÍBV í Evrópukeppni því Stjarnan tapaði í Kópavogi! Það braust út mikil sigurgleði í herbúðum okkar eftir sigurinn í Eyjum og svo fórum við beint á lokahóf fótboltans í Lavasal Bláa lónsins og þar hélt fögnuðurinn áfram.
Þá er ótrúleg sigurganga körfuboltaliðs Grindavíkur í haust magnað afrek og hún hefur þegar skilað tveimur minni titlum í hús. Stóru titlarnir tveir eru svo á dagskrá eftir áramót og það kæmi mér ekki á óvart ef Grindavík myndi hampa þeim líka, liðið hefur alla burði til þess. Kjarninn í liðinu eru heimamenn og síðan kom góður liðsstyrkur frá Keflavík og Njarðvík og svo eru bandarísku leikmennirnir öflugir.“

Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
„Að kvennalið Grindavíkur féll úr Pepsideildinni á markatölu. Eftir skelfilega byrjun á mótinu komst liðið í gang í seinni umferðinni og halaði inn stigum en það dugði því miður ekki. Þrátt fyrir að missa marga lykilmenn fyrir sumarið og svo enn fleiri um mitt sumar í nám til Bandaríkjanna sýndi liðið ótrúlegan mikinn styrk í seinni umferðinni.
Þá voru mikil vonbrigði að kvennalið Grindavíkur í körfuboltanum skyldi draga lið sitt úr Iceland-Express deildinni. Stelpurnar eru reyndar langefstar núna í 1. deildinni þannig að vonandi staldra þær stutt við fara strax upp aftur.“

Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
„Persónulega fannst mér gaman að sjá soninn, Gunnar Þorsteinsson, semja við Ipswich Town í Englandi í sumar en ég hef haldið með þessu liði síðan ég var peyji í Eyjum.
Óskar Pétursson markvörður og fyrirliði Grindavíkurliðsins átti stórbrotið tímabil á milli stanganna og varði m.a. vítaspyrnu í stöðunni 0-0 í leiknum örlagaríka í Eyjum. Haldi hann áfram á sömu braut verður hann orðinn A-landsliðsmarkvörður eftir nokkur ár.
Við eigum efnilegt íþróttafólk í Grindavík í fótbolta og körfubolta og bardagaíþróttamaðurinn Björn Lúkas Haraldsson er í fremstu röð í þremur greinum og unnið Íslandsmeistaratitla í þeim öllum; júdó, taekwondó og Jiu Jitzu. Þessi strákur getur náð langt. Þá langar mig að nefna Ingibjörgu Yrsu Ellertsdóttur sem er unglingalandsliðskona í körfubolta og fótbolta og lykilmaður í meistaraflokkum fótboltans og körfuboltans í Grindavík.“

Einhverjar íþróttageinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
„Það er mikill uppgangur í golfinu í Grindavík, búið er að stækka Húsatóftavöll í 18 holur og mikil rækt lögð við unglingastarfið. Golfið á því eftir að vaxa og dafna í Grindavík. Mikil hefð er fyrir sundinu í Reykjanesbæ og þá er kröftugt starf í sunddeildinni í Grindavík.“

Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
„Suðurnesin eiga ótrúlega flott íþróttafólk í flestum greinum. Fótboltaliðin Grindavík og Keflavík standa á nokkrum tímamótum hjá körlunum, á báðum stöðum er verið að byggja upp ný lið sem verður áhugavert að fylgjast með. Ég bind vonir við að Suðurnesjaliðin muni einoka körfuboltann í vetur, bæði í karla- og kvennaflokki. Ég sé fram á skemmtileg íþróttaár á Suðurnesjum, ekki síst hér í Grindavík þar sem krafturinn í samfélaginu er mikill og enn frekari uppbygging íþróttamannvirkja framundan.“

Mynd: Þorsteinn ásamt Gunnari syni sínum sem samdi við enska liðið Ipswich á árinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024