Íþróttaárið 2011: Karfan og sundið skara fram úr
Gunnar Oddsson aðstoðarþjálfari knattspyrnuliðs Keflvíkinga í Pepsi deild karla fer yfir árið 2011 í íþróttalífi Suðurnesja.
Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalífinu á Suðurnesjunum árið 2011?
„Góður árangur kvennakörfunar í Keflavík ásamt ungu og öflugu sundfólki ÍRB stendur uppúr.“
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
„Úrvalsdeildarliðin í fótboltanum ætluðu sér klárlega stærri hluti á árinu sem er að líða en bæði lið börðust fyrir lífi sínu og með seiglunni tókst þeim að halda sæti sínu.“
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
„Ákveðin kynslóðaskipti eiga sér stað víða og það tekur alltaf tíma fyrir þann efnilega að verða góður. Nýjar kynslóðir eru nú þegar farnar að setja mark sitt á fjölskrúðugt íþróttalífið og verður spennandi að sjá hvernig fram vindur. Það væri ósanngjarnt af mér að nefna einhvern einn frekar en annan.“
Einhverjar íþróttageinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
„Körfubolti kvenna í Njarðvík eru það íþróttalið sem kom mér mest á óvart á árinu.“
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
„Suðurnesjamenn munu halda áfram að standa sig og bind ég miklar vonir við unga fólkið. Vonandi ber okkur gæfa til að standa við bakið á þeim og gefa þeim þau tækifæri sem þarf til að taka næsta skref. Við verðum að hafa hugrekki og þolinmæði að leiðarljósi á næsta ári. Ég held að 2012 verði gott íþróttaár á Suðurnesjum.“