Íþróttaárið 2011: Gunni Einars á nóg eftir
Gísli Heiðarsson er bæjarfulltrúi í Garðinum og íþróttaáhugamaður mikill. Hann var liðtækur markvörður í knattspyrnu á sínum yngri árum og fylgist grannt með íþróttalífinu á Suðurnesjum. Hann fór yfir árið 2011 í sportinu á Suðurnesjum.
Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalífinu á Suðurnesjunum árið 2011?
„Stelpurnar hans Jonna í körfunni voru hreint frábærar, 3 tiltlar sem þær lönduðu á árinu. 5. flokkur kvenna hjá Víði varð Íslandsmeistari í futsal undir stórn Einsa Dan og þar með kom fyrsti Íslandsmeistaratitill yngri flokka Víðis í hús. 2. flokkur karla í knattspyrnu hjá Keflavík varð bikarmeistari undir stjórn Zorans og Hauks. Við áttum svo fjóra fulltrúa frá Nes á ólympíuleikunum í Aþenu. Vítaspyrnan hana Alexanders fyrir Grindavík á móti Þór, hún var tær snilld.“
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
„Slakt gengi Suðurnesjaliðanna í meistaraflokk í knattspyrnu. Það voru viss vonbrigði að Gunni Einars hætti í körfunni, hann á nóg eftir.“
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
„Allur meistarflokkur Keflavíkur kvenna í körfunni. Verð að nefna Guðmund Steinarsson, þar sem hann varð leikjahæsti og markahæsti leikmaður í sögu Keflavíkur.“
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
„Kvennakörfuboltinn í Keflavík í heild sinni, það er greinilega verið að gera góða hluti þar og mættu margir læra af þeim.“
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
„Ég á von á því að íþróttafólkið okkar komi mjög sterkt inn á næsta ári, við eigum mikið af hæfileikaríku íþróttafólki og með réttri þjálfun og stuðningi bæjaryfirvalda getum við náð enn lengra.“