Íþróttaárið 2010 - „Getum ekki verið á felgunni og látið hirða af okkur titlana“
Daníel Ómar Frímannsson er 29 ára fyrirliði Víðis Garði í knattspyrnu. Daníel segir árið 2010 ekki sæmandi Víðismönnum en segir þó að nú sé eina leiðin upp á við. Hann segir íþróttaflóruna fjölskrúðuga á Suðurnesjum og telur hann hnefaleikakappann Hafstein Smára Óskarsson einn af íþróttamönnum ársins á svæðinu.
Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalifinu á Suðurnesjunum árið 2010?
Það gleymist oft í umræðunni um Suðurnesin hversu ótrúlega fjölskrúðugt íþróttalífið er á skaganum okkar. Hérna hafa fæðst íslandsmeistarar í næstum hverri grein sem iðkuð er á landinu (nema íshokkí enda einstakt blíðviðri á Suðurnesjunum) og það er vert að hrósa þeim sem sjá um yngri flokka starf hjá íþróttafélögunum fyrir það mikilvæga og göfuga hlutverk sem þeir þjóna í samfélaginu.
Við Suðurnesjamenn áttum undir höggi að sækja í „okkar“ íþróttum þ.e. körfuboltanum og fótboltanum árið 2010 og ég vona að þetta tiltölulega bikarlausa ár verði notað í hverri hálfleiksræðu þjálfara árið 2011, við getum ekki verið á felgunni lengur í þessum íþróttum og látið hirða af okkur titlana.
En fyrir mér var það Hnefaleikafélag Reykjaness sem stóð sig best á árinu. Þrátt fyrir að hafa átt frábært ár árið 2009 þá hefur félagið fyrir löngu stimplað sig sem besta boxfélag landsins með hvern íslandsmeistarann á fætur öðrum. Yfirþjálfarinn Daði Ástþórsson er að gera gott mót í grasrótinni og Hafsteinn Smári Óskarsson er klárlega einn að íþróttamönnum ársins á Suðurnesjum.
Hvernig metur þú líðandi ár hjá þér persónulega í sambandi við fótboltann?
Fótbolti er liðsíþrótt og því er árangurinn metinn eftir gengi liðsins. Eins og flestir vita þá var árið 2010 ekki Víði í Garði sæmandi og árið mjög erfitt í alla staði. Við áttum erfitt uppdráttar frá fyrsta degi þar sem við misstum góða leikmenn fyrir tímabil og þrátt fyrir að hópurinn hafi verið samsettur af tiltölulega ungum leikmönnum með öll ensími í gangi, þá urðum við fyrir því hlutskipti að falla um deild.
Persónulega, þá var það mikill heiður fyrir mig að fá að spila með þessum strákum og vera fyrirliði fyrir jafnt fornfrægt lið og Víði og vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í sumar og ég vona að fleiri sjái sér fært að mæta á fallegasta grasvöll landsins á næsta ári
Hver eru markmið þín á næsta ári?
Það er einfalt að tala um markmið þegar spilað er í neðstu deild í fótbolta. Það er aðeins ein leið og það er upp. En gott lið er ekki búið til úr 11 einstaklingum, heldur samstilltum hóp af rúmlega 30 manns sem vinna öll saman að ákveðnum markmiðum. Þetta er verið að reyna að búa til hjá Víði og ég gef þessu 2 ár þangað til að fólk fari að flykkjast aftur á stærsta derby leik ársins, Víði-Reyni enda ólýsanleg stemmning á þessum leikjum.