Íþróttaárið 2010 - Fyrsti Vetrarólympíufarinn af Suðurnesjum
Jón Björn Ólafsson er fyrrverandi forstöðumaður íþróttadeildar hjá Víkurfréttum en hann starfar nú hjá Íþróttasambandi fatlaðra ásamt því að ritstýra glæsilegasta körfuboltavef landsins, karfan.is. Jón Björn er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur, með BA próf í íslensku frá HÍ, með fjölmiðlafræði sem aukafag. Jón Björn er giftur Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur og saman eiga þau dótturina Hólmfríði Eyju sem nýlega varð tveggja ára gömul. Jón er forfallin áhugamaður um íþróttir og við fengum piltinn til að gera upp árið 2010 í íþróttaheimi Suðurnesja.
Hvað finnst þér standa uppúr á líðandi ári í íþróttalífinu á Suðurnesjum?
Enginn titill hjá meistaraflokkunum í körfunni! Silfur hjá karlaliði Grindavíkur og kvennaliði Keflavíkur í bikarkeppninni og silfur hjá karlaliði Keflavíkur í Íslandsmótinu eftir tap í oddaleik gegn Snæfell. Yngri flokkarnir skiluðu þó sínu og unnu Íslands- og bikarmeistaratitla og nokkrir ungir og efnilegir Suðurnesjamenn urðu Norðurlandameistarar í körfubolta með U16 ára landsliði Íslands eftir að hafa valtað yfir Svíþjóð í úrslitaleiknum.
Nick Bradford olli fjaðrafoki
Víst við erum að tala um körfuboltann þá er nú allt í lagi að minnast á vistaskipti Nick Bradford úr Njarðvík í Keflavík. Hann tapar með grænum gegn Keflavík í undanúrslitum og fer svo til Keflavíkur og tapar með þeim gegn Snæfell í úrslitum. Afar athyglisverður gjörningur að margra mati en þegar öllu er á botninn hvolft þá er Nick Bradford atvinnumaður sama hvað allir félagsfánar segja. Ef fólk vill ekki sjá þetta gerast aftur verða félögin í landinu að taka það upp á sína arma inni á sambandsþingi KKÍ.
Massa-menn létu vel að sér kveða og rökuðu inn metum og Íslandsmeistaratitlum í lyftingum.
Magnað að ná inn á Vetrarólympíuleikanna
Árni Þorvaldsson varð fyrsti Suðurnesjamaðurinn til þess að keppa á Vetrarólympíuleikum með þátttöku sinni í Vancouver. Magnaður árangur að ná inn á mótið.
Enn eitt þátttökumetið var slegið á Nettó-mótinu í körfubolta sem er fyrir nokkru síðan orðið stærsta og flottasta körfuboltamót landsins.
Jóhann Rúnar Kristjánsson sýndi enn einu sinni hvers hann er megnugur en þessi fatlaði borðtennismaður keppti á Heimsmeistaramótinu í Suður-Kóreu og stefnir ótrauður á London 2012. Klárlega einn af fremstu afreksmönnum svæðisins og mættu margir taka eljusemi Jóhanns sér til fyrirmyndar.
Taekwondo-deild Keflavíkur náði sér í nokkra Íslandsmeistaratitla á árinu en þessi deild hefur vaxið vel og dafnað og náð góðum árangri þrátt fyrir ungan aldur.
Stuttur þjálfaraferill Kekic hjá Reyni
Þá fór ekki mikið fyrir knattspyrnunni þetta sumarið þrátt fyrir að útlitið hjá mörgum hefði verið þokkalegt í upphafi leiktíðar. Nokkrar hræringar hafa verið hjá Suðurnesjaliðunum og Kekic komst ofarlega á listann í keppninni um stysta þjálfaraferil landsins hjá einu félagsliði þegar samstarf hans og Reynismanna slitnaði á dögunum.
Það var, er og verður alltaf töluvert um tíðindi í íþróttalífinu á Suðurnesjum svo maður bíður bara spenntur eftir íþróttaárinu 2011.
Hvernig sérðu lið af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
2011 verður vonandi árangursríkara fyrir boltagreinarnar en 2010. Aðrar greinar en boltagreinar eru að gera mjög góða hluti eins og fram kemur hér að ofan.
Ég býst við að Grindavík og Keflavík muni gera tilkall í Íslandsmeistaratitilinn í karlakörfunni og Njarðvík og Grindavík eigi fína möguleika á bikarmeistaratitlinum. Kvennalið Keflavíkur mun svo berjast um þessa tvo titla og þeirra helsta hindrun verða Ágúst Björgvinsson og Hamarskonur.
Síðan Lee Sharpe lék í Grindavík hef ég alltaf vonast eftir að gulir myndu nú láta til sín taka í fótboltanum en það hefur jafnan verið fallbarátta hjá þeim eða miðjuhnoð. Ég veit ekki af hverju 2011 ætti að verða eitthvað öðruvísi en það væri gaman að sjá Suðurnesjaliðin í fótboltanum gera rósir á komandi leiktíð.