Íþróttaannáll Víkurfrétta 2016
Árið gert upp í máli og myndum
Þessa íþróttaárs verður helst minnst fyrir þátttöku Íslands á EM í fótbolta karla. Sannkallað fótboltafár greip landann og Suðurnesjamenn fylktu liði til Frakklands til þess að fá andann beint í æð. Árið verður íþróttafíklum annars ekki ýkja eftirminnilegt hér á Suðurnesjum þar sem titla vantaði í vinsælar/stórar greinar og íþróttafólk okkar var ekki meðal þeirra sem sköruðu fram úr á landsvísu.
Suðurnesjamenn áttu fulltrúa meðal „Strákanna okkar“ á EM, en þeir Arnór Ingvi Traustason, Ingvar Jónsson úr Reykjanesbæ og Grindvíkingurinn Alfreð Finnbogason voru allir með í för í Frakklandi. Í stóru vinsælu boltagreinunum voru Suðurnesjaliðin ekki á meðal þeirra bestu þetta árið. Í fótboltanum áttum við ekkert lið í efstu deild, en Grindvíkingar bættu úr því með því að koma tveimur liðum upp. Í körfuboltanum komust Suðurnesjaliðin hvorki í lokaúrslit karla né kvennamegin og verða það að teljast nokkur vonbrigði. Suðurnesjamenn eru víða að gera það gott í boltanum en ekki er hægt að tala um lykilmenn í landsliðum í fótbolta og körfubolta sem koma héðan af svæðinu. Enginn Suðurnesjamaður var svo einu sinni í umræðunni eða á topplistum yfir íþróttamenn ársins og það segir vissulega sína sögu.
Aðrar greinar en körfubolti eru fyrir nokkru farnar að halda merkjum Suðurnesja á lofti. Við erum orðin þekkt fyrir Skólahreysti, crossfit, sund og bardagaíþróttir. Hér er stiklað á stóru varðandi íþróttaafrek ársins og eftirminnileg atvik en listinn en engan veginn tæmandi.
Lið ársins
Lið ÍRB átti frábæru gengi að fagna á árinu. Á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25m laug vann ÍRB 21 grein af 44 mögulegum á mótinu. Ekkert sundlið í íslenskri sundsögu hefur áður unnið svo marga titla á einu Íslandsmóti. ÍRB urðu einnig þrefaldir bikarmeistarar á árinu og aldursflokkameistarar sjötta árið í röð.
Tíst ársins
Ummæli Guðmundar Steinarssonar þjálfara knattspyrnuliðs Njarðvíkinga á Twitter um meiðsli Stefan Bonneau, vöktu nokkra reiði meðal Njarðvíkinga á árinu. Guðmundur bar upp þá spurningu hvort körfuboltalið Njarðvíkinga ætlaði að standa við bakið á Stefan Bonneau í endurhæfingu vegna slitinnar hásinnar í annað sinn á stuttum tíma. „Verður fróðlegt að sjá hvað ákveðin tegund af kærleik gerir núna? #flokkstjóri #sumaríReykjanesbæ,“ skrifaði Guðmundur þá á Twitter. Viðtal við Gunnar Örlygsson formann körfuknattleiksdeildar UMFN fyrr á tímabilinu vakti nokkra athygli þar sem Gunnar talaði um náungakærleik félagsins í garð Bonneau. Stefan var svo látinn fara frá Njarðvík í lok nóvember og Guðmundur fylgdi sömu leið.
Augnablik ársins
Þarna kemur ekkert annað til greina en sigurmark Arnórs Ingva Traustasonar gegn Austurríkismönnum á EM í Frakklandi. Þjóðin gjörsamlega sturlaðist enda sæti í 16 liða úrslitum staðreynd eftir mark Suðurnesjamannsins. Um er að ræða eitt af stærstu augnablikum íþróttasögu þjóðarinnar. Arnór átti gott ár þar sem hann festi sig í sessi í landsliðinu og var keyptur til austurríska liðsins Rapid Vín í kjölfarið.
Endurtekið efni ársins
Holtaskóli sigraði í fimmta sinn á síðustu sex árum í Skólahreysti. Stóru-Vogaskóli kom svo öllum á óvart með því að landa þriðja sætinu. Magnaður árangur hjá krökkunum en Suðurnesjaskólar hafa haft yfirburði í þessari skemmtilegu íþrótt.
Mark ársins
Hin 16 ára knattspyrnukona Anita Lind Daníelsdóttir tryggði Keflavík sigur gegn grönnunum í Grindavík með ótrúlegu langskoti á lokasekúndum leiksins. Unga Keflavíkurliðið kom öllum á óvart í sumar og var nálægt því að vinna sér inn sæti í efstu deild.
Ungstyrni ársins
Sveindís Jane Jónsdóttir stal senunni í fótboltanum á Suðurnesjum. Á árinu 2016 lék hún 21 leik í deild og bikar og skoraði í þeim 31 mark. Hún bætti svo við 7 mörkum í 9 landsleikjum líka. Hún er fædd árið 2001.
Bónus ársins
Grindvíkingar fóru með bæði karla og kvennaliðin sín upp í efstu deild í fótboltanum og héldu uppi heiðri Suðurnesja á þeim vettvangi. Aðeins karlaliðið fékk þó bónusgreiðslu fyrir ómakið. „Það eru allt aðrar aðstæður í Pepsideild karla en kvenna þar sem tekjurnar af karlaliðunum til félaganna eru miklu hærri en af kvennaliðunum. Markaðslega séð þá er það ekki sambærilegt að komast í upp í Pepsideild karla og kvenna. Ef við eigum að greiða sambærilegar bónusgreiðslur til kvennaliðsins verðum við að finna nýja tekjustofna,“ sagði Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, um málið á sínum tíma.
Afmælisbarn ársins
Víðismenn fögnuðu 80 ára afmæli félagsins með því að fara á kostum og vinna sér inn sæti í 2. deild í sumar.
Fagn ársins
Einn af hörðustu stuðningsmönnum Keflvíkinga í körfuboltanum, Árni Þór Rafnsson datt heldur betur í lukkupottinn á árinu. Hann var einn af þeim áhorfendum sem valinn var til þess að spreyta sig á vítaskoti þar sem veglegir vinningar eru jafnan í boði fyrir góðar skyttur. Árni gerði sér lítið fyrir og smellti skotinu niður. Fagnaðarlætin sem á eftir fylgdu voru svo mögnuð að þeim verður best lýst í ljósmynd.
Óákveðni ársins
Hörður Axel Vilhjálmsson var bara ekki alveg viss um hvar hann ætlaði að spila körfubolta. Kíkjum aðeins á nokkrar fyrirsagnir sem við skrifuðum á síðustu mánuðum.
Hörður Axel spilar með Keflavík. - Helmingslíkur á að Hörður spili heima. - Hörður Axel fer til Grikklands. - Hörður verður með Keflvíkingum í kvöld. - Hörður Axel hefur samið við belgískt lið. - Hörður á heimleið. Hann leikur sem sagt núna með Keflvíkingum og er ekki að fara neitt á næstunni, höldum við.
Vonbrigði ársins
Körfuboltafólk á Suðurnesjum reið ekki feitum hesti þetta árið. Stóru titlarnir rötuðu ekki rétta leið. Hjá körlunum eru orðin þrjú ár síðan Grindvíkingar urðu Íslandsmeistarar en ekkert Suðurnesjalið hefur leikið til úrslita síðan þá. Stórveldin Njarðvík og Keflavík náðu síðast í Íslandsmeistaratitla árið 2006 og 2008 í karlaflokki. Árið 2013 urðu Keflavíkurkonur Íslandsmeistarar síðastar Suðurnesjaliða og hafa þær síðan leikið einu sinni til úrslita. Þær eru á góðri leið núna og líklegar til þess að landa titlum á þessu tímabili.
Næstum því ársins
Sara Sigmundsdóttir þótti líkleg til þess að sigra á heimsleikunum í crossfit en hún varð að gera sér þriðja sætið að góðu annað árið í röð. Hún hefur þó verið mjög sigursæl á árinu og er ein magnaðasta íþróttakona landsins um þessar mundir. Sara er orðin gríðarlega stórt nafn á heimsvísu í þessari vinsælu íþrótt og er þekktasta íþróttakona Suðurnesja innan- sem utanlands.
Bardagamaður ársins
Ægir Már Baldvinsson, íþróttamaður ársins hjá UMFN, hefur unnið alla mögulega titla innanlands í júdó. Hann varð Evrópumeistari unglinga í „gouren“ og „backhold“ sem og varð hann hálandameistari í „backhold“ í Skotlandi í ágúst. Einnig varð hann annar á Íslandsmeistaramóti unglinga í jiu jitsu og í topp átta á Norðurlandamótinu í júdó í U18 og U20. Fjölhæfur strákur sem á framtíðina fyrir sér.
Mót ársins
Massi - lyftingadeild UMFN stóð fyrir alþjóðlegu Evrópumóti í bekkpressu í sumar sem heppnaðist afar vel og var öll umgjörð á heimsmælikvarða.