Íþróttaannáll Suðurnesja árið 2010
Árið 2010 var ekki það eftirminnilegasta í manna minnum þegar kemur að íþróttum á Suðurnesjunum. Vinsælustu greinarnar, körfuboltinn og fótboltinn hafa oft skilað mun betri árangri og stórir titlar létu á sér standa, en þó voru ljósir punktar í öðrum greinum. Nóg af titlum komu í hús í ýmsum greinum sem falla oft í skuggann af körfuboltanum og fótboltanum og gróskan mikil á svæðinu í nýjum og ungum greinum. Í Reykjanesbæ hlutu til að mynda 183 Íslandsmeistaratitil á árinu, 97 kvenkyns og 86 karlkyns. Hér munum við svo fara á hundavaði yfir það sem makverðast taldist á árinu 2010 í heimi íþróttanna á Suðurnesjum.
Lyftingadeild UMFN; Massi landaði Íslandsmeistaratitli í kraftlyftingum en það verður að teljast frábær árangur. Einnig sigruðu Massamenn liðakeppnina í Íslandsmótinu í bekkpressu í febrúar. Samtals komu 13 titlar í hús hjá einstaklingum innan Massa á árinu.
Aron Ómarsson varð Íslandsmeistari í MX 1 Motocross. Sigraði hann með fullt hús stiga og setti einnig nýtt stigamet annað árið í röð. Aron ber höfuð og herðar yfir aðra í Motocrossi á Íslandi.
Við Suðurnesjabúar eignuðumst okkar fyrsta Vetrarólympíu-fara í febrúar þegar Árni Þorvaldsson komst inn á leikana í Vancouver. Taekwondo deildin hjá Keflavík eignaðist fjölmarga Íslandsmeistara en deildin er sífellt vaxandi.
Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson sýndi enn og aftur að hann er íþróttamaður í fremstu röð. Jóhann varð margfaldur Íslandsmeistari á árinu. Jóhann náði lágmarki til að keppa á Heimsmeistaramóti í borðtennis fatlaðra sem fram fór í Kóreu í október á þessu ári. Þar atti Jóhann kappi við bestu íþróttamenn í heimi í hans flokki. Það eitt og sér að hafa unnið sér inn þátttökurétt er mikið afrek.
Körfuboltaárið var sem fyrr segir ekki uppá marga fiska í titlum talið á Suðurnesjum en þó varð Keflavík á árinu Lengjubikarmeistari 2010 í körfuknattleik kvenna eftir sannfærandi sigur á Íslandsmeisturum KR í úrslitunum.
Keflvíkingar slógu granna sína úr Njarðvík út í undanúrslitum úrslitakeppninnar og háðu síðan blóðuga baráttu við Snæfellinga um Íslandsmeistaratitilinn. Einvígið fór alla leið í oddaleik þar sem Snæfell fór með sigur af hólmi. Grindvíkingar féllu einnig fyrir hendi Hólmara eftir tvo tapleiki.
10. og 11. flokkur karla hjá UMFN urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar árið 2010 og auk þess nældi 10. flokkur sér í bronsið á Scania Cup í Svíþjóð en það er eins konar Norðurlandamót félagsliða. Loks voru fimm drengir frá Njarðvík sem léku með U-16 liði Íslands sem varð Norðurlandameistari á árinu. Grindavík urðu bikarmeistarar í unglingaflokki stúlkna á árinu ásamt því að sjöundi flokkur karla hjá félaginu varð Íslandsmeistari.
Yngri flokkar Keflavíkur unnu fjölda titla hjá stúlkunum. 9. og 10. flokkur unnu t.d. bæði Íslands- og bikarmeistaratitlana en 62 stúlkur hjá Keflvíkingum urðu Íslandsmeistarar á árinu.
Sundlið ÍRB náði góðum árangri á árinu og eignaðist fjölmarga Íslandsmeistara í ýmsum aldursflokkum. Erla Dögg Haraldsdóttir og Árni Már Árnason gerðu það einnig gott í háskólasundinu í Bandaríkjunum.
Íþróttafélagið Nes eignaðist níu Íslandsmeistara í frjálsum íþróttum árið 2010 sem og átta Íslandsmeistara í knattspyrnu.
Átján ára Keflavíkurmær, Karen Guðnadóttir, hélt uppi merkjum kylfinga á Suðurnesjum á árinu. Hún varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja í annað sinn og gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í flokki 17-18 ára stúlkna í höggleik og holukeppni.
Ýmis eftirtektaverð félagsskipti urðu á árinu og ber þar helst að nefna vistaskipti Nick Bradford frá Njarðvík yfir í lið grannanna í Keflavík. Knattspyrnulið Njarðvíkur missti þrjá sterka leikmenn í raðir úrvalsdeildaliða og Grétar Ólafur Hjartarson gekk nýverið í raðir Keflvíkinga frá Grindavík. Þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Hörður Sveinsson yfirgáfu einnig Keflavík nú í haust.
Willum Þór Þórsson var ráðinn landsliðsþjálfari í Futsal (innanhússknattspyrnu) og voru sjö leikmenn úr röðum Keflvíkinga valdir í hóp liðsins. Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar í futsal í janúar síðastliðnum en náðu ekki að verja titil sinn nú á dögunum. Keflvíkingar ollu þó miklum vonbrigðum í sumar en liðið hafnaði í sjötta sæti eftir að hafa byrjað mótið af krafti.
Gilles Mbang Ondo, leikmaður Grindavíkur í Pepsi-deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu fékk gullskóinn fyrir 14 skoruð mörk í sumar. Grindvíkingar voru einu sinni enn að glíma við falldrauginn og voru einu stigi frá því að falla og enduðu í tíunda sæti.
Þeir körfuknattleiksmenn, Magnús Gunnarsson og Arnar Freyr Jónsson héldu í víking til Danmerkur þar sem þeir sömdu báðir við Aabyhoj í Árhúsum. Þeir eru nú báðir komnir aftur á heimaslóðir. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson leikur um þessar mundir með liði Solna í Svíþjóð og hefur staðið sig gríðarlega vel.
Víðismenn féllu úr 2. deild í sumar í knattspyrnunni en sama var uppi á teningnum hjá Njarðvíkingum sem féllu úr 1. deildinni. Reynismenn sigldu lygnan sjó og héldu sæti sínu í annarri deild.
Júdóíþróttin virðist vera í sókn á svæðinu og nýverið var stofnuð júdódeild UMFN en fyrir eiga Grindvíkingar og Þróttur Vogum sterkt júdófólk. Björn Lúkas Haraldsson úr Grindavík varð m.a. Norðurlandameistari 15-16 ára í -81 kg flokki sl. vor.
Jón Bjarni Hrólfsson varð Íslandsmeistari sem ökumaður í Rally annað árið í röð. Sigur í 4 keppnum á árinu og einu sinni annað sætið. Tilnefndur til Akstursíþróttamanns ársins hjá ÍSÍ/Lía.
Hnefaleikakappinn Hafsteinn Smári Óskarsson varð Íslandsmeistari í Léttmillivigt U17 (70 kg) á árinu. Þar fer án efa einn af efnilegustu hnefaleikamönnum landsins.
Samantekt: Eyþór Sæmundsson.