Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Issi notar stafrófskerfið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 5. apríl 2024 kl. 08:42

Issi notar stafrófskerfið

Það var hnífjafn leikur um páskana á milli Antons Guðmundssonar frá Suðurnesjabæ og Magnúsar Einþórs Áskelssonar, Magga Tóka. Þeir fengu báðir sjö leiki rétta en Maggi var með þrjá leiki rétta með leikjum með einu merki á móti tveimur leikjum Antons. Maggi því kominn áfram en Anton úr leik og er honum þökkuð þátttakan.

Sjö tipparar, enginn frá Íslandi, nældu sér í rúmar 22 milljónir með því að fá alla þrettán leikina rétta. 239 tipparar, þar af fimm Íslendingar, náðu tólf leikjum réttum og fékk hver rúmar 147 þúsund krónur í sinn hlut.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áskorandi vikunnar er Grindvíkingurinn sem hefur lengi búið í Reykjanesbæ og er kenndur við fish & chips, Issi.

„Já, ég hef reynslu af því að tippa, nota venjulega kerfi sem ég fann sjálfur upp, Stafrófskrefið. Það er þannig að liðið sem er á undan í stafrófinu vinnur leikinn, fyrir þá sem eru ekki enn búnir að kveikja þá tek ég hér dæmi; Arsenal - Totten-ham fær merkið 1. Tottenham - Arsenal fær merkið 2. Ég tek þetta dæmi því ég er Tottenham-maður og sýni hér þá auðmýkt sem ég bý yfir en í mínum huga má ekki gilda nein ást í tippinu, bara í hjónabandinu. Ég er oft spurður að því hvenær X fer á seðilinn, það kemur þegar stutt er á milli liða í stafrófinu, t.d Bristol City - Cardiff, ég myndi hiklaust setja X á þannig leik. Svo er kannski gott fyrir mig að vera ekki með stafrófið á hreinu, þá koma X-in stundum inn. Þess vegna er kjörið fyrir mig að mæta kennara. Maggi Tóka getur vonandi farið yfir stafrófið með mér og þó, þá fer mér kannski að ganga verr í tippinu en ég hef einu sinni fengið þrettán rétta, ekki nóg með það heldur var veglegur pottur því úrslitin voru óvænt, ég fékk fjórar kúlur í vasann. Ég kíkti alltaf af og til í gula húsið í Grindavík og tippaði, við Hjalli bróðir vorum einu sinni í keppni og ég vann hann alltaf, notaði alltaf Stafrófskerfið. Ég mun nota það núna á móti Magga og veit að ég mun vinna, hann á ekki séns í mig. Ég hef aldrei farið á úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og lít á þetta sem kjörið tækifæri til þess, ég ætla að skella mér með blaðamanni Víkurfrétta til London í lok maí. Þá verður allt komið á fullt skrið hjá mér í „Issi - Fish & Chips“, túristatímabilið verður þá komið á fullt og nóg að gera. Þetta hefur gengið vel síðan ég hóf rekstur árið 2017, stöðugur gangur en ég lenti í smá tjóni í byrjun mars. Það fór heitavatnslögn hjá mér en ég er að verða búinn að koma öllu í toppstand og get ekki beðið eftir sumrinu,“ sagði Issi.

Maggi var ánægður með að komast áfram í tippleiknum og ætlar sér alla leið. Ekki skemmdi heldur fyrir þegar hann frétti hverjum hann mætir í næstu umferð.

„He he he, gastu ekki fundið einhvern betri en Issa til að mæta mér? Ég er viss um að hann þorir ekki að leggja rauðvínsflösku undir á móti mér en ég lýsi hér með yfir að ég þori því. Ég nenni samt ekki að taka á móti einhverri ódýrri rauðvínsflösku frá Issa, þetta þarf að vera nokkuð gott vín. Ég var auðvitað ánægður með að vinna Anton, hann sýndi auðvitað að sólin skín stundum á hundsrass, þegar hann vann hinn reynda Magga á Réttinum. Ég þóttist samt vita að ég myndi vinna Anton og kannski kom mér bara á óvart hversu jafn leikurinn var á milli okkar. Ég ætla ekki að hafa neina spennu í leiknum á móti Issa. Ég ætla að snýta mér á honum,“ sagði Maggi.