Íslensku keppendurnir fengu flottar mótttökur í flugstöðinni
Starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli tóku í gærmorgun á móti íslensku keppendunum á Alþjóða sumarleikum Special Olympics sem fram fóru í Los Angeles dagana 25. júlí til 3. ágúst 2015. Þeir náðu mjög góðum árangri en alls var 41 keppandi frá Íslandi á leikunum og samtals keppa um 7.000 manns á þessum leikum sem haldnir eru fjórða hvert ár.
Íslensku keppendurnir skiluðu meðal annars fjórum gullverðlaunum í hús. Það voru því þreyttir en sælir keppendur sem gengu inn í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa fengið heiðursvatnsboga yfir flugvélina frá slökkvibifreiðum Keflavíkurflugvallar. Tekið var á móti þeim með lúðraþyt, blómum og hressandi veitingum eftir langt ferðalag frá Los Angeles. Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar hélt stutta tölu og bauð keppendurna velkomna heim og óskaði þeim til hamingju með árangurinn. Þess má geta að tveir starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli kepptu á leikunum, þau Jósef Daníelsson og Bryndís Brynjólfsdóttir og fékk Bryndís gullverðlaun í boðhlaupi á leikunum.
Sóley, Hlynur og Kristján frá Isavia og tveir af keppendunum sem starfa í flugstöðinni, Jósef Daníelsson og Bryndís Brynjólfsdóttir.