Íslenska landsliðið vann öruggan sigur á Catawba College
Íslenska körfuboltalandsliðið vann frekar auðveldan sigur á Catawba College í æfingaleik í kvöld. Lokastaðan var 99-73.
Leikurinn, sem var sá fyrri af tveimur sem Ísland spilar við Catawba, var jafn í fyrstu þar sem gestirnir leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, 22-23, en í hálfleik hafði landsliðið náð átta stiga forystu, 45-37. Í þriðja leikhluta tóku Íslendingar öll völd og voru komnir með 26 stiga forystu fyrir síðasta leikhluta, sem þeir héldu til enda.
Njarðvíkingurinn Friðrik Stefánsson var eins og kóngur í ríki sínu í leiknum þar sem hann skoraði 21 stig. Hann skoraði úr 10 af 11 skotum sínum utan af velli, þar af einu þriggja stiga, og tók 11 fráköst. Næstur honum kom annar Njarðvíkingur, Brenton Birmingham, sem skoraði 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þar á eftir komu Magni Hafsteinsson hjá KR með 13 stig og nýkrýndur íþróttamaður Keflavíkur, Gunnar Einarsson, með 11 stig. Að auki má minnast á framlag Jóns Norðdal sem tók 7 fráköst og var drjúgur í vörninni.
Hjá Catawba var Jolly Manning bestur og skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. Andy Thomson kom næstur með 14 stig og Íslendingurinn í liði Catawba, Helgi Már Magnússon, skoraði 11 stig og hefur eflaust leikið betur en í kvöld, en hann hitti illa utan af velli og tapaði 5 boltum.
Annað kvöld mætast liðin aftur í Þorlákshöfn, en þá verður landsliðið skipað öðrum 10 mönnum og munu þeir einnig freista þess að leggja háskólaliðið að velli.