Íslenska kvennalandsliðið sigraði Englendinga
Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik vann góðan sigur á því enska í gærkvöldi, 72-67.
Leikurinn er liður í æfingaferð og munu stúlkurnar leika aftur gegn Englendingum í kvöld og gegn úrvalsliði London á morgun.
Leikurinn var í járnum framan af en íslensku stelpurnar leiddu naumlega, 10-12 eftir fyrsta leikhluta og 25-27 í hálfleik. Þá komu heimastúlkur sterkar inn og náðu sex stiga forskoti fyrir síðasta leikhlutann, 54-48.
Síðasti leikhlutinn einkenndist af mikill baráttu þar sem vörnin small í gang hjá íslenska liðinu. Þær náðu stjórninni í leiknum og sigldu framúr á síðustu mínútunum og höfðu sigur.
Suðurnesjastúlkur léku að sjálfsögðu stórt hlutverk í leiknum þar sem Birna Valgarðsdóttir og Erla Þorsteinsdóttir skoruðu sín hvor 11 stigin. Hin unga og efnilega Helena Sverrisdóttir var hins vegar stigahæst með 19 stig og var einnig með 10 stoðsendingar.
„Ég var mjög ánægður með karakterinn í liðinu að klára leikinn þegar við vorum búin að missa þær aðeins frammúr okkur,“ sagði Ívar Ásgrímsson í viðtali á heimasíðu KKÍ. „Við komum til baka og spilum alveg gríðarlega vel þrátt fyrir að vera að spila fyrir fullu húsi áhorfenda sem voru allir á bandi Englendinga. Við erum að sýna það í þessum leik að við erum í framför. Við erum að fara út með ungt lið og erum að ná góðum úrslitum.“