Íslendingar hrundu niður töfluna á lokdeginum á EM í Leiru - GS hrósað fyrir framkvæmd mótsins
Íslensku kylfingarnir áttu afar dapran lokadag á Evrópumóti landsliða 70 ára og eldri á Hólmsvelli í Leiru. Hvorugt liðið endaði í verðlaunasæti eftir að hafa verið í toppbaráttunni allan tímann. Mótið tókst vel í alla staði og var Golfklúbbi Suðurnesja hrósað fyrir framkvæmdina.
Fyrir lokahringinn á föstudag var forgjafarliðið í 1.-2. sæti en höggleiksliðið í 4. sæti en aðeins nokkrum höggum á eftir efsta liðinu. Báðum liðum gekk hins vegar mjög illa á lokadeginum en þá léku allir 18 holu höggleik með eða án forgjafar. Fyrstu tvo dagana var fyrirkomulagið þannig að leikið var í tveggja manna liðum og þá gekk okkar mönnum mjög vel. Nokkuð mikill vindur var síðasta daginn en nánast engin rigning, aðstæður sem íslensku kylfingarnir þekkja mjög vel en svo virðist sem það hafi virkað öfugt. Sigurður Albertsson í án forgjafar liðinu var sá eini sem sýndi sitt rétta andlit en hann átti næst besta hringinn af öllum og lék á 79 höggum eða 7 yfir pari. Aðrir keppendur Íslands í án forgjafarliðinu léku langt undir getu en fjögur skor af sex töldu á lokadeginum og lék Ísland á næsta lakasta skorinu þann daginn eða 352 höggum og endaði liðið í næst neðsta sæti af sex liðum 670 höggum. Sviss vann örugglega á 650 höggum, Þýskaland varð í 2. sæti á 658 og Spánverjar urðu þriðju á 660 höggum. Einn íslenskur kylfingur var í þýska liðinu, Haukur Guðmundsson úr GR fékk silfurpening og var því eini Íslendingurinn sem komst á verðlaunapall í mótinu en með „vitlausu“ liði. Hefð fyrir því að lið geti fengið styrk á mótsstað og fékk þýska liðið Hauk í hópinn og hann lék ágætlega í öllu mótinu.
Forgjafarliðið sem var í 1.-2. sæti fyrir lokahringinn endaði í 7. sæti af tíu liðum. Það var sama uppi á teningnum þar og aðeins einn Íslendinganna fékk meira en 30 punkta (33) en það var xx. Finnar sigruðu á 275 punktum, Noregr varð í 2. sæti með aðeins einum punkti minna eða 274 og Spánn í því þriðja á 272. Mikil spenna var í lokin og jöfn keppni það var mikil vinna hjá stjórnendum mótsins að fara yfir skorkortin í lokin.
Yfir eitthundrað manns, keppendur og aðstandendur mótsins sóttu lokahóf í Lava sal Bláa lónsins í gærkvöldi þar sem verðlaun voru afhent. Forseti Evrópusambands eldri kylfinga og liðsstjórar sigurvegarans lofuðu mjög allar aðstæður í Leirunni og framkvæmd mótsins sem þótti ganga mjög vel þó veðurguðirnir hafi boðið upp á fjölbreyttan „matseðil“ í vikunni.
Mótsstjórinn, Lucinda Grímsdóttir sem er í stjórn Landssambands eldri kylfinga, LEK, var sæmd gullmerki Golfsambands Íslands, GSÍ, í lokahófinu en hinir erlendu keppendur hlóðu hana lofi. Hún var í eldlínu undirbúnings mótsins en Margeir Vilhjálmsson frá Golfklúbbi Suðurnesja og Inga Magnúsdóttir frá LEK og margir fleiri voru meðal helstu stjórnenda mótsins með henni og var þakkað sérstaklega á lokahófinu sem og stjórn Golfklúbbs Suðurnesja. Liðsstjóri finnska liðsins sem vann forgjafarkeppnina tilgreindi sérstaklega hvað það hafi verið ánæglegt að sjá hvað margir sjálfboðaliðar frá GS hafi verið við vinnu á mótinu, m.a. sem „forkaddíar“ og síðast en ekki síst sem kylfusveinar. Um þrjátíu ungmenni sinntu því skemmtilega hlutverki og kynntust þau mörgum öldungum frá öðrum löndum í mótinu.
Golfskálinn í Leiru skartaði sínu fegursta í Evrópumótinu enda allur nýmálaður og flottur. Sama má segja um Hólmsvöll þó svo llturinn á honum hafi borið keim af þurrki undanfarnar vikur. Á efstu myndinni er Sigurður Albertsson sem stóð sig vel á mótinu og var með næsta besta skorið á lokadeginum.
Kylfingar pútta á 13. flötinni í Evrópumótinu.
Margir ungir kylfusveinar drógu kerrur og poka öldunganna á Evrópumótinu...
... og þar létu stúlkurnar ekkert sitt eftir liggja í þeim efnum.
Einar Lars Jónsson úr GS var kylfusveinn hjá þessum öldungi fyrir mörgum árum síðan þegar hluti Evrópumóts 55 ára og eldri fór fram í Leiru. Sá gamli spurði um Einar sem mætti á lokadeginum og fór í kylfusveinshlutverkið á nýjan leik. Hér eru þeir félagar saman á 13. teig.