Íslandsmótið í knattspyrnu á lokametrunum
Það var mikið um að vera á knattspyrnuvöllum landsins um helgina, það styttist í síðustu umferðir Íslandsmótsins og er spennan mikil í flestum deildum – og úrslit helgarinnar minnkuðu ekki spennuna. Suðurnesjaliðin eru flest í harðri baráttu, ýmist um að forðast fallsæti eða sigur.
Keflavík missti af mikilvægum stigum í fallbaráttu Pepsi Max-deildar karla
Keflvíkingar léku í Kórnum gegn HK sem var í fallsæti fyrir leikinn. Gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið en Keflavík er í fjórða neðsta sæti með átján stig.
Keflavík varð fyrir áfalli í fyrri hálfleik þegar Marley Blair missti stjórn á skapi sínu og sló til leikmanns HK, hann fékk réttilega að líta rauða spjaldið og Keflvíkingar því einum færri (22').
Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur og það var ekki fyrr en á 74. mínútu að fyrsta markið leit dagsins ljós. Það var Keflvíkingurinn fyrrverandi, Stefan Alexander Ljubicic, sem skoraði þá fyrir HK og kom þeim í forystu. Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna en tvær frábærar markvörslur hjá markverði HK í uppbótartíma gerðu út um þær vonir þeirra.
Úrslitin gera stöðuna í neðsta hluta deildarinnar mjög jafna en ÍA situr á botninum með tólf stig, næstu þrjú lið eru mjög jöfn. Keflavík er fjórða neðst með átján stig, þá kemur HK með sautján og Fylkir með sextán. Þegar eftir eru þrjár umferðir er ljóst að ekkert þessara liða má við því að misstíga sig á lokametrunum.
Dramatík í Grindavík
Það gengur lítið hjá Grindavík í Lengjudeild karla. Grindavík tók á móti Kórdrengjum á laugardag og voru það gestirnir sem komust yfir á 30. mínútu.
Skömmu fyrir leikslok virtist loks eitthvað ætla að falla með Grindvíkingum þegar leikmaður gestanna skoraði sjálfsmark (88') en í uppbótartíma gerður Kórdrengir út um þær væntingar með sigurmarki (90'+2). Sjötta tap Grindavíkur í síðustu sjö leikjum og orðið endanlega ljóst að þeir fara ekki upp í ár.
Spennan eykst í annarri deild karla
Þróttur situr sem fyrr í efsta sæti annarrar deildar karla þrátt fyrir tap gegn Völsungi um helgina. Völsungur er komið í annað sæti, tveimur stigum á eftir Þrótti, og KV er í því þriðja, fjórum stigum frá toppnum.
Leikur Þróttar og Völsungs var leikinn fyrir norðan. Snemma í leiknum komst Völsungur yfir þegar þeir sendu boltann inn í teiginn, engin hætta virtist vera af sendingunni en boltinn lenti við fætur Rafal Stefáns Daníelssonar, markmanns Þróttar, og virtist breyta um stefnu og fór í netið (8'). Afskaplega klaufalegt á að horfa.
Aðeins tveimur mínútum síðar var leikmanni Völsungs vikið af velli með rautt spjald en Þróttur náði ekki að jafna leikinn þrátt fyrir að liggja í sókn. Leikurinn fór að mestu fram við vítateig heimamanna sem „parkeruðu strætónum“ og náðu að hanga á þessu eina marki.
Njarðvík er ennþá í baráttunni um sæti í næstefstu deild.
Njarðvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með KF þegar leikið var á Ólafsfjarðarvelli um helgina. Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það Skotarnir Marc McAusland (62') og Kenneth Hogg (85') sem skoruðu sitt marki hvor og Njarðvíkingar lönduðu 0:2 sigri.
Þegar þrjár umferðir eru óleiknar er Njarðvík í fjórða sæti með 32 stig, aðeins fjórum stigum á eftir Völsungi sem er í öðru sæti.
Víðismenn gerðu góða ferð í Árbæinn þegar þeir lögðu Elliða að velli
Það voru heimamenn sem komust yfir snemma í fyrri hálfleik (6') og höfðu eins marks forystu í leikhléi.
Víðir jafnaði leikinn snemma í þeim síðari þegar Jóhann Þór Arnarsson skoraði úr vítastpyrnu (53'). Aðeins mínútu síðar kom Atli Freyr Ottesen Pálsson Víði yfir (54') og Jóhann Þór jók forystuna með marki úr annari vítaspyrnu á 70. mínútu.
Elliði minnkaði muninn sex mínútum síðar (76') en Sasha Uriel Litwin Romero skoraði fjórða mark Víðis í uppbótatíma (90'+3) og gulltryggði góðan sigur.
Víðir siglir lygnan sæ í þriðju deild karla, er í áttunda sæti og hvorki á leiðinni upp né niður.