Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Íslandsmet í kappflugi dúfna
Mánudagur 4. júlí 2011 kl. 10:50

Íslandsmet í kappflugi dúfna

„Stundum tekur raunveruleikinn skáldskapnum fram og ég held að enginn hefði getað látið sig dreyma um það sem gerðist að morgni 2. Júlí en þá settum við félagarnir nýtt Íslandsmet í kappflugi bréfdúfna.“ Sagði Högni Ólafsson þegar hann og dúfan Herrauður slógu Íslandsmet um helgina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Högni sem er mikill áhugamaður um bréfdúfur lagði mikið á sig í vikunni á undan til að undirbúa fuglana sem best fyrir helgina og nýji methafinn stóð svo við sitt þegar hann flaug 152,484km leið á tæpum 78 mínútum. Það eru um 1960 metrar á mínútu. Til að setja það í samhengi við eitthvað sem við þekkjum úr daglegu tali þá er þetta 117km hraði á klukkustund.

Hann ber númerið ISL-09-0518 og er stór og sterkur, rauður karlfugl. „Við feðgarnir urðum ásáttir um að hann fengi nafnið „Herrauður“. Nafnið er fengið úr fornaldarsögum Norðurlanda, nánar tiltekið Bósa sögu ok Herrauðs. Herrauður þessi var mikil hetja og er honum svona lýst í Bósa sögu.

„Hann var mikill vexti ok fríðr sýnum, sterkr at afli ok vel at íþróttum búinn, svá at fáir menn máttu við hann jafnast.“

Þessi lýsing á kannski ágætlega við 518 og svo er hann líka rauður að lit, eigandinn er auk þess forfallinn áhugamaður fornra fræða og bókmennta þannig að það er ágætt að geta sameinað áhugasvið sín með þessum hætti.

518 hefur þó ekki alltaf verið í hávegum hafður hjá mér, líkamsbygging hans er mér lítt að skapi en hann er nokkuð grófbyggður, rýr af vöðvum og hefur þann leiða ókost að flugfjaðrir hans eru brothættar. En hann er sterkur og léttur, geðslag hans er einstakt og hann er góðum gáfum gæddur.“

„Nú þegar ég skoða feril hans kemur í ljós að hann hefur vart stigið feilspor, hann hefur litla keppnis reynslu, hefur aðeins flogið í fimm keppnum, 2009 frá Bifröst og Laugarbakka þar sem líkur eru mjög litlar á að fuglar frá mér verði ofarlega sökum staðsetningar. Hann flaug þann 25. Júní 2011 frá Seljalandsfossi í þungbúnu veðri en kom á 3.-4. tímum án þess að sjáanlegt væri að það reyndi eitthvað á hann.“

Hann var svo einn af þeim fjórum sem unnu Fagurhólsmýrar keppnina árið 2009 en hann vann þar þriðju verðlaun. Nú hefur hann komið sér í sögubækurnar með þessum frábæra árangri frá Hrauneyjafossi þar sem hann vinnur fyrstu verðlaun og setur nýtt Íslandsmet í hraða.