Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Íslandsmeistari í skák úr Grindavík
Fimmtudagur 22. október 2015 kl. 00:24

Íslandsmeistari í skák úr Grindavík

Birta Eiríksdóttir, 8 ára stúlka úr Hópskóla í Grindavík, varð Íslandsmeistari stúlkna í skák um síðustu helgi þar sem keppni fór fram í Rimaskóla. Birta er ein af fjölmörgum stelpum úr Hópskóla sem hefur stundað skák einu sinni í viku á þriðja vetur.

Ólöf Bergvinsdóttir jafnaldra Birtu náði þriðja sætinu í sama flokki og Elsa Arnaldsdóttir úr Garðabæ varð í öðru sæti. Allar stelpurnar úr Grindavík stóðu sig frábærlega og voru ofarlega í mótinu. Strákarnir vissu að það yrði á brattan að sækja fyrir þá þar sem þeirra flokkur er fullur af grjóthörðum drengjum sem æfa daglega skák ásamt því að keppa mjög reglulega í skákmótum.

Nadia Heiðrún Arthúrssdóttir sem er í Grunnskóla Grindavíkur varð í öðru sæti í flokki stúlkna 11-12 ára. Hún hefur líka lagt stund á skákina í rúma tvo vetur. Sólon Siguringason úr Njarðvíkurskóla hefur lagt stund á skák frá 5 ára aldri og unnið mörg mót. Hann keppti úrslitaskák um Íslandsmeistaratitil 10 ára drengja og þar var líka keppt um sæti til að komast fyrir Íslands hönd á Norðurlandamót drengja sem haldið er í Svíþjóð árið 2016. Sólon tapaði skákinni og lenti í þriðja sæti í flokknum sem er frábær árangur hjá honum.

Skákkennslan í grunnskólum Grindavíkur síðustu 3 vetur hefur skilað mjög sterkum skákkrökkum. Þeir eru nú meðal sterkustu skákkrakka landsins í sínum aldursflokkum. Framtíðin er björt varðandi skákina í bænum og ber það að þakka góðum stuðningi skólastjórnenda. Áhugi foreldra skiptir einnig gríðarlega miklu máli svo að góður árangur náist.

Skákkennsla á Suðurnesjum fer fram í Grindavík, Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði. Kennslan er á stundarskrá barna einu sinni í viku í vissum árgöngum samkvæmt skipulagi skólastjórnenda í hverjum skóla. Það tekur nokkur skólaár að koma af stað þeirri stemmningu sem býr til afreks krakka í skák og vonandi mun það verða framtíðin á Suðurnesjum að krakkar í öllum skólum fái tækifæri til að þjálfa íþróttina. Reynslan sýnir að krakkarnir hafa gaman af því að styrkja rökhugsun sína í leik og keppni.

Kennslan í skólum miðar ekki að því að búa til skákmeistara heldur þjálfa rökhugsun allra. Mjög margar rannsóknir hafa verið gerðar á árangri skákkennslu og niðurstöður hafa alltaf sýnt að hún styður mjög mikið við annað nám og ber þá helst að nefna stærðfræði og lestur. Þar að auki læra nemendur ótal margt annað við skákborðið sem gagnast þeim í lífinu.
Framundan er stórt Jólamót í Reykjanesbæ. Undanfarin 3 ár hefur Samsuð og Krakkaskák ásamt veglegum stuðningi Nettó haldið mót fyrir krakkana og í ár mun Skáksamband Íslands taka þátt í að halda mótið með okkur. Fylgist vel með nánari auglýsingum um mótið sem birtast þegar nær dregur.

Fullorðinsskák í Reykjanesbæ er því miður ekki með neinar æfingar en við erum samt alltaf þéttir þegar kemur að keppni.
A- og B-sveitir Skákfélags Reykjanesbæjar urðu Íslandsmeistarar í annari og fjórðu deild árið 2014 og fátt getur hindrað sigur A-sveitarinnar í annari deild í mars 2016 þar sem sveitin stendur mjög vel að vígi eftir sigur fyrr í haust. Örn Leó Jóhannsson varð í fyrra Íslandsmeistari 20 ára og yngri og hann teflir með Skákfélagi Reykjanesbæjar þó hann búi ekki lengur hér eins og margir aðrir góðir félagar í Skákfélagi Reykjanesbæjar. Vonir standa til að skákmenn á öllum aldri eigi eftir að koma heim á Suðurnesin með marga Íslandsmeistartitla á næstu árum.

Með skákkveðju,
Siguringi Sigurjónsson skákkennari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024