Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Íslandsmeistararnir sterkari í framlengdum leik
Miðvikudagur 7. nóvember 2007 kl. 22:14

Íslandsmeistararnir sterkari í framlengdum leik

Mikil spenna var í Röstinni í Grindavík í kvöld þegar heimakonur máttu sætta sig við að tapa 88-90 gegn Íslandsmeisturum Hauka í framlengdum leik. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 81-81 en Haukar gerðu fyrstu stig framlengingarinnar og höfðu að lokum góðan sigur.

 

Einnar mínútu þögn var fyrir leikinn í minningu Mörtu Guðmundsdóttur og léku leikmenn beggja liða með sorgarbönd í leiknum. Allur ágóðinn af miðasölunni rennur svo til styrktar fjölskyldu Mörtu.

 

Strax í upphafi leiks voru bæði lið dugleg að fá dæmdar á sig villur og fékk Ingibjörg Jakobsdóttir strax 3 villur í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar áttu fína rispu í lok leikhlutans og lauk honum í stöðunni 23-17 fyrir Grindavík.

 

Annar og skemmtilegri bragur var á öðrum leikhluta og þær Kiera Hardy hjá Haukum og Joanna Skiba hjá Grindavík voru allt í öllu. Liðin gengu til leikhlés í stöðunni 41-41 og spennandi síðari hálfleikur í vændum.

 

Áfram voru þær Skiba og Hardy í aðalhlutverkum í síðari hálfleik. Haukar lentu í villuvandræðum þegar þær Unnur Tara og Hanna Hálfdánardóttir fengu báðar sínar fjórðu villu. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 69-68 Grindavík í vil og spennandi lokafjórðungur framundan.

 

Unnur Tara Jónsdóttir var drjúg fyrir Hauka í upphafi fjórða leikhluta en fékk snemma sína fimmtu villu og varð frá að víkja. Ólöf Helga Pálsdóttir kom Grindavík í 76-75 með góðri þriggja stiga körfu. Grindavík komst síðar í 81-78 en Haukar gerðu vel að skora næstu þrjú stig og jöfnuðu leikinn í 81-81.

 

Þegar 5 sekúndur voru til leiksloka var brotið á Joönnu Skiba og hún hélt á vítalínuna en brenndi af báðum skotunum og Haukar náðu ekki að nýta tímann til að stela sigrinum og því varð að framlengja.

 

Kristrún Sigurjónsdóttir gerði fyrstu stig framlengingarinnar af vítalínunni og Haukar komust í 83-87 með mikilvægri þriggja stiga körfu frá Kieru Hardy. Grindavík minnkaði síðar muninn í 88-89 eftir gott gegnumbrot hjá Tiffany Robertson.

 

Haukar leiddu með einu stigi þegar sjö sekúndur voru til leiksloka og Grindvíkingar í sókn. Grindvíkingar brutust upp að körfunni en sniðskotið vildi ekki ofan í og Kristrún Sigurjónsdóttir reif niður mikilvægasta frákast leiksins og tryggði þar með Haukum sigurinn því Grindavík braut strax á henni. Kristrún fór á línuna þegar 2 sekúndur voru til leiksloka, setti niður annað vítið og staðan 88-90. Grindavík náði ekki að nýta sér þessar tvær sekúndur og því fögnuðu Haukar sigri.

 

Kiera Hardy gerði 40 stig fyrir Hauka í leiknum en Kristrún Sigurjónsdóttir 19. Hjá Grindavík var Joanna Skiba með 32 stig og Tiffany Robertson gerði 31 stig og tók 19 fráköst.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Myndir/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024