Íslandsmeistaradraumurinn úti eftir háspennuleik
Deildarmeistarar Keflavíkur urðu að láta í minni pokann í kvöld fyrir Val í úrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir naumt tap (72:68) og Valur vinnur því einvígið 3:1.
Leikurinn var hnífjafn og spennandi en það voru Keflvíkingar sem fóru betur af stað. Þær náðu mest níu stiga forystu (20:29) í öðrum leikhluta en þá fór Valur að vinna upp forskotið hægt og sígandi.
Þegar blásið var til hálfleiks var staðan 31:34, Keflavík í vil, en með seiglu jöfnuðu Valskonur leikinn í þeim þriðja og staðan jöfn fyrir fjórða leikhluta (54:54).
Síðasti leikhluti var í járnum, fyrst komst Keflavík tveimur stigum yfir en svo snerist dæmið við og lokamínútan var svo sannarlega rafmögnuð, staðan 67:65 fyrir Val og Keflavík misnotar tvö vítaköst. Sókn Vals gengur ekki upp og Karina Konstantinova stelur boltanu, setur niður þrist og kemur Keflavík yfir (67:68). Valskonur svara að bragði með þriggja stiga körfu (70:68) og 24 sekúndur á klukkunni. Sókn Keflvíkinga rann út í sandinn og Valur kláraði leikinn með tveimur vítaköstum. Fjögurra stiga sigur Vals (72:68) og titillinn þeirra.
Naumt tap og Keflavíkurliðið hefur sannarlega staðið sig vel í vetur þótt þær hafi ætlað sér Íslandsmeistarabikarinn.
Valur - Keflavík 72:68
(13:17, 18:17, 23:20, 18:14)
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 21/14 fráköst/3 varin skot, Birna Valgerður Benónýsdóttir 12, Karina Denislavova Konstantinova 11/8 fráköst/5 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 8, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Anna Lára Vignisdóttir 5, Agnes María Svansdóttir 3, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Ólöf Rún Óladóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.