Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Íslandsbikarinn ekki á loft í Njarðvík
Miðvikudagur 11. apríl 2012 kl. 21:29

Íslandsbikarinn ekki á loft í Njarðvík



Nú rétt í þessu lauk leik Njarðvíkinga og Hauka í úrslitum Iceland Express-deildar kvenna með sigri Hauka. Lokatölur urðu 66-69 Haukum í vil, en heimamenn í Njarðvík leiddu allt frá upphafi. Mest fór munurinn í 17 stig fyrir Njarðvík en Haukar náðu að snúa taflinu sér í hag undir lokin. Nánast var um samskonar leik að ræða og fyrsta leik liðanna nema að þá hrósuðu Njarðvíkingar sigri.

Njarðvík var yfir 10-6 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Jenkins hjá Haukum varði tvö svakaleg skot í byrjun leiksins og gaf strax tóninn en hún átti gríðarlega öflugan leik. Haukar tóku leikhlé þegar 3:30 eftir af 1. leikhluta en þá var staðan 14-6 fyrir heimamenn og mikið stuð á þeim grænklæddu í stúkunni. Petrúnella jók muninn í 17-6 með þriggja stiga körfu og allt ætlaði um koll að keyra þegar Njarðvíkingar stálu boltanum og Lele Hardy brunaði fram, skoraði og fékk vítaskot að auki.

Það var augljóst að Shanae Baker-Brice var í miklu stuði en hún var út um allan völl og barðist eins og ljón. Í lok fyrsta leikhluta voru Haukar aðeins búnir að skora 11 stig gegn 21 hjá Njarðvík. Njarðvíkingar héldu áfram uppteknum hætti og munurinn var orðinn 17 stig þegar Bjarni þjálfari Hauka tók aftur leikhlé. 30-13. Sverrir var að leyfa ungu stelpunum að spila nokkrar mínútur og allt var á góðu róli hjá Njarðvík. Njarðvíkingar féllu þó í þá gryfju að fara að skjóta full mikið fyrir utan þriggja stiga línuna og Haukar komu með ágætis áhlaup. 33-22 var staðan

í hálfleik.

Njarðvíkingar voru búnir að skjóta 21 þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik gegn aðeins einu hjá Haukum. Erlendu leikmenn Njarðvíkinga báru af í fyrri hálfleik og vora þær Hardy og Baker-Brice með 13 og 11 stig. Aðrar voru með 3 stig eða minna.

Petúnella Súladóttir tók við sér í upphafi síðari hálfleiks og hóf að keyra að körfunni í stað þess að skjóta fyrir utan en hún hafði reynt 6 þriggja stiga í fyrri hálfleik og þar rataði eitt rétta leið. Hún náði því að skora nokkrar körfur og sótti einnig nokkur vítaskot.

Haukar náðu þó að minnka muninn niður í 5 stig, 43-38 þegar leikhlutinn var rétt hálfnaður. Svo þegar síðasti leikhlutinn var aðeins eftir þá voru Njarðvíkingar 7 stigum á undan Haukum og allt í járnum.

Gríðarlega sterk vörn gestanna frá Hafnarfirði reyndist Njarðvíkingum erfið í upphafi 4. leikhluta. 55-52 var staðan þegar tæpar 7 mínútur voru til leiksloka og heimamenn virtust eiga á brattan að sækja. Liðin skoruðu svo ekki í drykklanga stund eða þangað til að Haukar skoruðu tvær körfu i röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum, 55-56 og Njarðvíkingar tóku leikhlé til að ræða málin. Þá voru

Shanae Baker-Brice svaraði með þrist og kom Njarðvíkingum yfir á ný. Svo tók við gríðarlega spennandi kafli þar sem liðin skiptust á forystu. Að lokum fór það svo að Haukar höfðu sigur eftir rosalegan viðsnúning en þær unnu síðasta leikhluta 15-25, en til samanburðar skoruðu Haukar aðeins 22 stig í fyrri hálfleik.



Næsti leikur liðanna fer svo fram í Hafnarfirði næstkomandi laugardag.

Stigin:

Njarðvík: Shanae Baker-Brice 22/8 fráköst/3 varin skot, Lele Hardy 17/18 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 11/6 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 6/7 fráköst, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 3, Ína María Einarsdóttir 3, Ólöf Helga Pálsdóttir 2/4 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 2, Erna Hákonardóttir 0, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0.

Haukar: Tierny Jenkins 26/29 fráköst/6 varin skot, Jence Ann Rhoads 19/6 fráköst/6 stoðsendingar/4 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 11/4 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/5 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Sara Pálmadóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024