Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sunnudagur 23. maí 2004 kl. 15:21

Ísland þrefaldur Norðurlandameistari!

Þrjú yngri landslið Íslands hömpuðu sigurlaunum í Norðurlandamótinu í körfuknattleik í dag.

U-16 lið kvenna vann nauman sigur á heimaliði Svía, 77-76, U-16 lið karla vann öruggan sigur á Svíum, 86-55. Þá vann U-18 lið karla góðan sigur, einnig á Svíum, 97-91, þar sem Kristján Rúnar Sigurðsson skoraði 34 stig, þar af níu 3ja stiga körfur, og Jóhann Árni Ólafsson skoraði 31. Pavel Ermolinskij átti líka frábæran leik og skoraði 17 stig, tók 13 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Þessi árangur er ótrúlegur þar sem Svíar og Finnar hafa löngum borið höfuð og herðar yfir önnur lið, og er vonandi til vitnis um hversu mikil gróska er í körfuboltanum hérlendis og víst er að ekki þarf að kvíða framtíðinni.

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari U-18 strákanna, sagði í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu að mikil gleði ríkti skiljanlega í íslensku herbúðunum. „Við fórum hérna út til að gera okkar besta og vissum að við þyrfum að sýna frábæra frammistöðu til að ná árangri. Við stefndum auðvitað á sigur í öllum leikjum, en ég held að við hefðum verið álitin rugluð ef við hefðum spáð einhverjum titlum fyrir mótið.“

Íslenski hópurinn kemur aftur heim á morgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024