Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

ÍSLAND-ÍRLAND
Föstudagur 16. febrúar 2007 kl. 10:04

ÍSLAND-ÍRLAND

Boxveisla í Reykjanesbæ

 

Á laugardagskvöld verður hnefaleikaveisla í Reykjanesbæ þegar 15 írskir hnefaleikamenn mæta liði Reykjanesbæjar í nýju boxhöllinni sem áður var gamla sundhöllin. Von er á fullu húsi og hófst forsala aðgöngumiða í gær hjá Kaffi DUUS. Guðjón Vilhelm Sigurðsson, forstöðumaður Hnefaleikafélags Reykjaness, segir sína bardagamenn klára í slaginn og að bardagar Íslendinga og Íra séu þeir allra hörðustu því hnefaleikakappar þessara landa vilji sækja, ekki verjast.

 

Unglingahópar liðanna hefja keppni á laugardag kl. 14 og stendur hún til kl. 17. Um daginn verður einnig kynning á starfi félagsins í nýjum og glæsilegum húsakynnum. Um kl. 20 hefjast svo aðalbardagarnir og þá verður selt inn. Miðaverð í forsölu er kr. 1500 en við innganginn mun kosta kr. 1900 inn.

 

,,Við ætlum að koma 350 manns inn í húsið og skapa skemmtilega og ógleymanlega stemmningu. Það verður talað um þennan viðburð næstu vikurnar,” sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir. ,,Það eru efnilegir strákar að koma upp og við tjöldum nýrri línu af boxurum á laugardag. Þar á milli eru strákar sem munu láta vel að sér kveða í framtíðinni og því um að gera að byrja að fylgjast með þeim frá upphafi,” sagði Guðjón sem gat vart leynt spennu sinni fyrir laugardeginum en hann er ekki einn um það að vera spenntur. ,,Ég hef verið í nokkuð reglulegu sambandi við Írana og það er einnig mikil spenna í þeirra herbúðum. Þar er að finna marga góða boxara og þeir eru ekkert að grínast þegar þeir stíga í hringinn. Þeir eru rosalegir bardagahundar.”

 

Keppt verður í ólympískum hnefaleikum þar sem sigur fæst með flestum höggum og einnig á rothöggum eða tæknilegum rothöggum. ,,Bæði lið hafa verið að æfa vel að undanförnu og ég er klár á því að það verði uppselt hjá okkur svo það er um að gera að næla sér í miða í tæka tíð. Ég hef farið víða í boxinu og fullyrði að það er hvergi betri stuðningur við hnefaleika en í Reykjanesbæ, jafnvel allri Evrópu. Við náðum t.d. 3500 manns í Laugardalshöllina á sínum tíma og ég veit að þar voru rúmlega 2000 Suðurnesjamenn,” sagði Guðjón sem tekur á móti Írum á föstudag og þá fá þeir einn dag til að æfa í boxhöllinni.

 

Guðjón skoraði á Suðurnesjamenn að mæta á laugardagskvöld. ,,Það er tilvalið að fara í Höllina og sjá Keflavíkurkonur verða bikarmeistarar og koma svo heim og upplifa flugeldasýninguna með okkur.”

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024