Ísland berst um 3. sætið í kvöld
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir Austurríkismönnum í síðasta leik sínum í B-deild Evrópukeppninnar. Leikurinn er hreinn úrslitaleikur um 3. sætið í riðlinum og ljóst að bæði lið munu leika áfram í B-deild Evrópukeppninnar á næstu árum.
Íslenska liðið hefur átt góðu gengi að fagna í sumar. Liðið hafði sigur á Smáþjóðaleikunum í Mónakó og lögðu Georgíumenn á dögunum. Með sigri í kvöld getur liðið farið í frí eftir sumarið með sigurhlutfallið 8-1.
Ísland mátti sætta sig við nokkuð stóran ósigur í leiknum ytra gegn Austurríki. Lokatölur í þeim leik voru 85-64 Austurríki í vil þar sem sauð upp úr á lokamínútum leiksins og heimamenn röðuðu inn stigum af vítalínunni.
Brenton Birmingham gat ekki verið með íslenska landsliðinu í sigurleiknum gegn Lúxemburg um síðustu helgi en hann er nú aftur kominn inn í hópinn. Sveinbjörn Claessen, ÍR, sem tók sæti Brentons í Lúxemburg er því aftur kominn út úr hópnum.
Hópurinn er skipaður eftirfarandi leikmönnum:
Magnús Gunnarsson
Friðrik Stefánsson
Fannar Ólafsson
Helgi Magnússon
Logi Gunnarsson
Sigurður Þorsteinsson
Kristinn Jónasson
Þorleifur Ólafsson
Jakob Örn Sigurðarson
Páll Axel Vilbergsson
Brenton Birmingham
Brynjar Björnsson
VF-mynd/ [email protected]