Ísak Óli til Danmerkur
Knattspyrnudeild Keflavíkur og danska úrvalsdeildarliðið Sonderjyske hafa komist að samkomulagi um kaup danska félagsins á hinum 18 ára efnilega varnarmanni Ísak Óla Ólafssyni.
Ísak hefur verið lykilmaður í liði Keflavíkur síðustu ár þrátt fyrir ungan aldur og var nýverið valin í undir 21 árs landslið Íslands. Hann hefur leikið 54 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim 2 mörk. Þá á hann 17 leiki með yngri landsliðum Íslands. Í sumar í Inkasso deildinni hefur Ísak verið fyrirliði liðsins.
Hluti af samkomulagi liðanna er að Ísak mun leika með Keflavíkur liðinu fram til 23. ágúst áður en hann heldur til Danmerkur.
Sigurður Garðarsson formaður knattspyrnudeildarinnar:
„Við erum mjög ánægð fyrir hönd Ísaks með þessi vistaskipti og óskum honum alls hins besta. Hann mun skilja eftir sig stórt skarð í liðinu en ég efast ekki um að við munum ná að fylla það með tíð og tíma. Ísak er uppalinn hjá Keflavík og hefur spilað fyrir okkur alla tíð og er því stór hluti af Keflavíkur fjölskyldunni. Við vorum mjög ánægð með þau samskipti sem við áttum við Sonderjyske og teljum að samkomulagið sé sanngjarnt fyrir alla aðila. Við erum með öflugt yngri flokka starf sem sést vel á fjölda fyrrverandi Keflvíkinga sem eru virkir í atvinnumennsku og standa sig vel. Það er einfaldlega sá veruleiki sem við og flest önnur íslensk lið búum við að efnilegustu leikmennirnir vilja reyna sig á stærra sviði. Við fögnum því að sjálfsögðu og erum alltaf tilbúnir til að greiða götu okkar leikmanna að því gefnu að aðilar séu sammála um verðmat á leikmanninum. “