Ísak Óli afþakkaði boð Leeds
Ísak Óli Ólafsson, leikmaður Keflavíkur í knattspyrnu var á reynslu hjá knattspyrnufélaginu Leeds síðastliðið haust og vildi félagið fá hann til sín. Fótbolti.net greinir frá þessu.
„Það gekk rosalega vel úti og allt í kringum þetta var flott. Ég held að það sé hins vegar betra að vera á Íslandi og spila meistaraflokksbolta en að fara í U19 ára liði þarna úti," sagði Ísak í viðtali við Fótbolta.net. „Þetta voru litlir peningar í akademíunni fyrir mig og litlir peningar fyrir Keflavík."
Ísak Óli var valinn efnilegasti leikmaður Inkasso-deildarinnar í fyrra en Keflavík leikur í Pepsi-deildinni í sumar. Ísak segir þó í samtali við Fótbolta.net að það hafi verið erfitt að afþakka boð Leeds og um leið að afþakka boð um að fara út í atvinnumennsku og segir að grasið sé ekki alltaf grænna hinu megin, aðstaðan í Leeds hafi verið flott en lítill munur hafi verið á þjálfuninni þar úti og hér heima.