Ísak Óli á reynslu til Leeds United
Einn efnilegasti leikmaður Keflvíkinga í knattspyrnu, hinn 17 ára Ísak Óli Ólafsson, fór til Leeds United á reynslu í gær en þar mun hann dvelja í rúma viku.
„Það er búið að vera mjög fínt. Það gengur vel á æfingunum og ég er hjá mjög fínu fólki,“ segir Ísak í samtali við Víkurfréttir. Hann hefur spilað 21 leik í Inkasso-deildinni og staðið sig vel, en þar að auki hefur hann spilað leiki með U17 landsliði Íslands og einn leik með U19.
„Næstu daga verða stífar æfingar. Hérna úti æfa þeir oftar en heima og lyfta á hverjum degi, þannig þetta er öðruvísi. Ég mun æfa vel og njóta þess,“ segir Ísak Óli.