Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 19. júlí 2000 kl. 20:27

Íris Edda og Eydís á Olympíuleikana

Fyrir síðustu helgi ákvað Sundsamband Íslands að fara fram á það að samræma lágmarkskröfur fyrir þátttöku á Olympíuleikum kröfum Frjálsíþróttasambands Íslands, þetta var samþykkt af hálfu Íþrótta og Olympíusambands Íslands. Þessar fréttir eru einstaklega gleðilegar fyrir okkur Keflvíkinga því þær stöllur Eydís Konráðsdóttir og Íris Edda Heimisdóttir hafa synt á tímum sem eru töluvert betri en þessi lágmörk segja til um og hafa þess vegna tryggt sér þátttökurétt á OL. í Sydney. Töluverð umræða hefur verið um það undanfarna daga hvort þetta sé rétta leiðin við val á Olympíuliði Íslands og þess vegna ætla ég að setja hér fram nokkrar staðreyndir. 1)Fyrri lágmörk Sundsambands Íslands voru sett með fyrirvara og miðuðu að því að þeir þátttakendur sem næðu tilsettum skilyrðum ættu möguleika á að komast í úrslit á Olympíuleikunum. Út frá þessu getur hver sem er spurt sjálfan sig að því hvort það eigi að vera í verkahring Íslendinga að fylla 8 - 16 manna úrslit í Sydney, til glöggvunar þá eru á bilinu 70 - 100 sundmenn í hverri grein. Það er að sjálfsögðu óskastaða að eiga sundmenn í úrslitum Olympíuleika en við verðum einnig að líta á það að sennilegast er meira en helmingur keppenda í hverri grein valinn á sömu forsendum og Sundsamband Íslands hefur kosið að gera nú. 2) Þau lágmörk sem nú eru notuð eru nákvæmlega þau sömu og Frjálsíþróttasamband Íslands notar þ.e. þær Íris Edda og Eydís þurfa að ná og hafa náð sömu lágmörkum og t.a.m. Jón Arnar Magnússon og Guðrún Arnardóttir þurftu að ná til að tryggja sér keppnisrétt á leikunum. 3) Alþjóða Olympíunefndin setur upp ákveðin lágmörk fyrir keppnisrétt á Olympíuleikun þ.e. B - lágmörk sem leyfa hverri þjóð að senda einn keppanda í hverja grein og A - lágmörk en þau eru í raun og veru notuð til að takmarka keppendur í hverja grein því þau eru strangari og ef að þjóð ætlar að senda tvo keppendur í einhverja einstaka grein þurfa þeir báðir að hafa náð árangri undir A - lágmörkum. Íris Edda og Eydís hafa báðar náð B - lágmörkum Alþjóðlegu Olympíunefndarinnar og þannig tryggt sér keppnisrétt. Þær Íris Edda og Eydís munu nú á næstu vikum ganga í gegnum skemmtilegt en mjög svo krefjandi undirbúningstímabil þar sem æft verður í Keflavík, Kópavogi, Reykjavík, Hveragerði, Akranesi og Akureyri. Þær munu halda utan föstudaginn 25. ágúst til Ástralíu þar sem við taka þriggja vikna æfingabúðir rétt fyrir utan Sydney. Leikarnir sjálfir fara síðan fram frá miðjum september fram í byrjun október og mun Eydís keppa í 100 metra flugsundi og Íris Edda í 100 og 200 metra bringusundi. Með sundkveðju fyrir hönd Sunddeildar Keflavíkur Eðvarð Þór Eðvarðsson, Yfirþjálfari.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024