Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 16. september 1999 kl. 15:50

ÍRB vs. LONDON LEOPARD

Lundúnar-hlébörðum slátrað í Keflavík! Það var hrein og skær skemmtun sem þeim 1000 áhorfendum sem lögðu Reykjanesbæjarliðinu lið gegn London Leopards var boðið upp á. Þetta sterkasta lið sem Ísland hefur sent til alþjóðlegrar keppni var með á nótunum frá upphafi og gjörsigraði bresku hlébarðana 111-75. Strax í upphafi sýndi ÍRB-liðið hörkuvörn og mikinn aga í sókninni. Skytturnar voru fljótar í gang og vörnin stal fjölda bolta af ráðvilltum leikmönnum breska liðsins. Munurinn var þó ekki mikill fyrr en á 13 mínútu en þá skyldu leiðir. Pernell Perry, besti leikmaður ÍRB að þessu sinni, tróð með tilþrifum og Guðjón Skúlason setti niður þrist auk þess sem dæmd var óíþróttamannsleg villa á leikmann Leopards = staðan 38-23. Hermann Hauksson skellti síðan endanlega í lás, 53-37, með þremur þriggja í röð á lokamínútunni en alls skoraði Hermann 15 stig í hálfleiknum. Aldrei séð aðrar eins skyttur á tuttugu ára þjálfaraferli Seinni hálfleikur var rökrétt framhald þess fyrri. Munurinn jókst jafnt og örugglega og sýningunni lauk 111-75. Þjálfari enska liðsins var ekkert að skafa utan af hlutunum í leikslok. „Ég tek hatt minn ofan fyrir íslenskum leikmönnum ÍRB. Þeir þurftu ekkert á útlendingunum að halda í þessum leik. Á tuttugu ára þjálfaraferli mínum hef ég aldrei orðið vitni að annarri eins skotsýningu. Mínu liði til varnar verð ég að segja mér fannst dómgæsla FIBA-dómaranna af afar lágum gæðaflokki og leyfðu þeir ÍRB að komast upp með mjög harðan leik undir körfunum. Ég átti von á að styrkur okkar undir körfunni myndi vega upp á móti skyttum íslenska liðsins en dómgæslan kom í veg fyrir það.“ Hverja telur þú vera möguleika liðs þíns á að vinna upp muninn á heimavelli? „Eins og snjóbolta í helvíti. Við eigum alls enga möguleika og brottrekstur Chapers bætir ekki stöðuna. Þó er það mín skoðun að Chapers hljóti að hafa verið að bregðast við áreiti, hann er ekki þekktur af svona hegðan, dómarinn sá bara seinna brotið. Við munum þó reyna að gera þetta skemmtilegt í London, sýna betri körfubolta.“ Stoltur af mínum mönnum Sigurður Ingimundarson var stoltur af leikmönnum ÍRB. „Leikmenn liðsins sýndu mikinn karakter og aga, bæði í sókn og vörn. Það var alveg sama hvaða leikmenn voru inn á, leikur liðsins var jafn og allir eiga hrós skilið. Ég hafði gert mér vonir um sigur, jafnvel eitthvað forskot í síðari leikinn, en 36 stiga sigur er meira en ég hafði þorað að vona. Nú er bara að klára þetta í London næsta þriðjudag. Fimm bretar í hverju liði Sú regla breska körfuknattleikssambandsins að leyfa fimm bandaríkjamenní hverju liði olli blm. VF. hugarangri og spurði hann því Billi Mimms um ástæður þessa? „Reglan er sú að leyfðir eru fimm útlendingar í hverju liði. Annars staðar í Evrópu er leyfður einn bandaríkjamaður eða tveir en restin af liðinu getur þess vegna verið frá Júgóslavíu, Spáni eða Ítalíu. Hjá okkur verða alltaf í.þ.m. 5 breskir leikmenn. Hvort útlendingarnir eru Evrópskir Bosman leikmenn eða Bandaríkjamenn skiptir engu, það eru alltaf 5 bretar í hverju liði.“ Alla sem drituðu niður þriggja stiga Þjálfari London Leopards, Billy Mimms, varð aðkomnum blaðamönnum sem öðrum gott viðtalsefni. Ein spurningin sem lögð var fyrir kappann var hvaða leikmenn íslenska liðsins hann vildi helst sjá í eigin liði. Svarið var stutt og laggott. „Alla sem drituðu yfir okkur þriggja stiga skotunum.“ Áfram ÍRB !! Kynnir leiksins var Ragnar Örn Pétursson og átti hann í einhverjum erfiðleikum með að bera fram nöfn leikmanna enska liðsins. Hann náði sér þó vel á strik í lokin, svo vel að þegar hann kynnti síðasta leikmann heimaliðsins var kominn áberandi enskur (bandarískur) hreimur á Hermann Hauksson. Ragnar tók einnig á nauðsynlegum þætti í leiknum. Hann kynnti áhorfendum með hverjum þeim ættu að halda og reyndi eftir mætti að ná takti á ÍRB söngliðið. Skil ekki hvað gekk að manninum! Hinn bandaríski bakvörður Lundúnaliðsins, Kenya Chapers, náði sér alls ekki strik í leiknum og lauk þátttöku sinni í honum og keppninni líklegast allri þegar hann var rekinn af leikvelli fyrir að slá fautalega til Friðriks Ragnarssonar. Friðrik fékk mikið högg, svo mikið að sá á piltij og hann brenndi í kjölfarið af báðum vítaskotunum, nokkuð sem hann á ekki að venjast, í Keflavík. „Þetta hófst hinum megin á vellinum. Þar gerði hann sér leik að því að stíga á tærnar á mér á meðan vítin voru tekin. Síðan vorum við að kýtast á miðjunni og þegar ég ýtti við honum með skrokknum niðri á teignum í vörninni trylltist hann alveg. Ég skil bara ekki hvað gekk að manninum að hegða sér svona.“ Varstu ánægður með leikinn? Þetta gekk framar vonum. Ég var hálfhræddur við allar stóru yfirlýsingarnar sem menn voru að gefa í fjölmiðlum og sá fyrir mér hvernig við yrðum grillaðir ef allt klikkaði. Það lögðust allir á eitt og við uppskárum stórsigur. Nú er bara að stíga skrefið til fulls og tryggja okkur þáttöku í riðlakeppninni í London næsta þriðjudag. Við förum ekkert þangað til að hanga á forskotinu heldur til að þess að sigra þá aftur. Nú heyrðist því kastað að bretarnir hefðu verið að gera sig breiða fyrir leikinn? „Já, það barst okkur til eyrna að þeim þætti lítið til Reykjanesbæjar koma og að þeir ætluðu sér að sigra næsta auðveldlega. Það dregur sannarlega ekki úr ánægjunni.“ Gorgeir fram til átta VF hleraði það hjá rútubifreiðastjóra þeim er annaðist London Leopardsliðið að talsverður gorgeir hefði verið í leikmönnum liðsins. Þeir hefðu gert í því að setja út á bæinn og íslenskan körfuknattleik. Hætt er við því að loftið hafi verið farið að minnka í breska loftbelgnum eftir klukkan 20 og nokkuð ljóst að breska loftbelgsofurmennið Richard Branson hefði þótt lítt fýsilegt að fljúga nokkuð á niðurbrotnu sjálfstrausti bretanna í leikslok. Stórt skref fyrir íslenskan körfuknattleik Stórsigur ÍRB á London Leopards 111-75 er meira en bara fyrsti Evrópusigur Suðurnesjaliðanna tveggja. Þar sem ólíklegt er að bretarnir nái að vinna upp 36 stiga mun í seinni leiknum í London eru allar líkur á að ÍRB leiki í riðlakeppni Evrópukeppni Bikarhafa á komandi tímabili. Þar keppir ÍRB, heima og heiman, við lið úr sterkum deildum í Evrópu og gefst því frábært sóknarfæri til að kynna íslenskan körfubolta á alþjóðavettvangi. Teitur líklegast ekki með í London Stórskyttan Teitur Örlygsson verður líklegast hvíldur í seinni leik liðanna næsta þriðjudag. „Ég fékk högg á kálfann í vikunni og það er kominn bólguhnúður í hann. Við sjáum hvað setur en svo gæti farið að ég verði að hvíla í seinni leiknum.“ Tölulegar staðreyndir úr leik ÍRB og London Leopards 4 Gunnar Einarsson 9 stig 0 fráköst 0 varin skot 2 tapaðir 2 stolnir 2 stoðsend. 5 Fannar Ólafsson 10 stig 4 fráköst 1 varið skot 1 tapaður 1 stolinn 0 stoðsend. 6 Purnell Perry 27 stig 11 fráköst 2 varin skot 3 tapaðir 0 stolnir 0 stoðsend. 9 Friðrik Ragnarsson 3 stig 0 fráköst 0 varin skot 2 tapaðir 1 stolinn 4 stoðsend. 10 Hjörtur Harðarson 10 stig 3 fráköst 0 varin skot 1 tapaður 0 stolinn 6 stoðsend. 11 Teitur Örlygsson 13 stig 1 frákast 0 varin skot 0 tapaðir 1 stolinn 4 stoðsend. 12 Guðjón Skúlason 10 stig 1 frákast 0 varin skot 1 tapaður 0 stolinn 2 stoðsend. 13 Chianti Roberts 6 stig 2 fráköst 1 varið skot 3 tapaðir 4 stolnir 2 stoðsend. 14 Friðrik Stefánsson 4 stig 7 fráköst 2 varin skot 0 tapaðir 0 stolnir 1 stoðsend. 15 Hermann Hauksson 18 stig 1 frákast 0 varin skot 0 tapaðir 0 stolnir 2 stoðsend. Youngblood bestur breskra Framherjinn Robert Youngblood lék langbest bresku leikmannanna. Hann er bandarískur en forráðamenn London Leopards berjast þessa dagana fyrir því hann fái breskt vegabréf. Youngblood var duglegur við að veiða villur á íslensku fram- og miðherjana. Beitti hann öllum brögðum og leikhæfileikum sínum, við misjafna hrifningu áhorfenda, og hreinlega plataði fimmtu villuna á Chianti Roberts. Roberts, sem náði sér aldrei á strik í leiknum, á að hafa nægilega leikreynslu til að falla ekki í jafn augljósa gildru og Youngblood setti upp fyrir hann. Snaran hreinlega blasti við og algjör óþarfi að stinga höfðinu í snöruna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024