Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sunnudagur 16. nóvember 2003 kl. 20:18

ÍRB sigrar með yfirburðum í bikarkeppni SSÍ

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar sigraði örugglega í bikarkeppni Sundsambands Íslands, SSÍ, sem lauk í dag í Sundhöll Reykjavíkur. Bæði karla -og kvennalið ÍBR sigruðu í sínum flokkum og var sigurinn aldrei í hættu. ÍRB hafði forystu eftir fyrsta dag og að loknum öðrum degi var munurinn 1.400 stig á næsta lið. Þegar upp var staðið hafði ÍRB unnið til 11 gullverðlauna, 9 silfurverðlauna og 5 bronsverðlauna. 

Liðsmenn ÍRB unnu sér samtals inn 29.300 stig, Sundfélag Hafnarfjarðar hafnaði í öðru sæti með 26.771 stig eftir æsispennandi baráttu við Ægi sem varð í þriðja sæti með 26.596. KR hreppti fjórða sæti, Breiðablik það fimmta og Vestri varð neðstur og fellur því í aðra deild. Sundfélag Akraness, sem sigraði í 2. deild, tekur sæti Vestra í 1. deild. Óðinn frá Akureyri kom á eftir SA og Fjölnir var í þriðja sæti.

Guðni Emilsson ÍRB bætti eigið drengjamet í 100 m bringusundi um rúma sekúndu. Hilmar Pétur Sigurðsson úr ÍRB sigraði í 1500m skriðsundi karla í 1. deild á tímanum 16:38,76 og bætti sig þar um 20 sekúndur. Tími Hilmars er undir lágmarki SSÍ fyrir Norðurlandameistaramót unglinga sem fer fram í Osló í byrjun desember nk.

Helena Ósk Ívarsdóttir úr ÍRB sló telpnamet þegar hún synti í 100m bringusundi á tímanum 1:14,00 og bætti þar með met stöllu sinnar úr ÍRB, Erlu Daggar Haraldsdóttur um rúmlega hálfa sekúndu. Tími Helenu er einnig undir lágmarki SSÍ fyrir Evrópumeistaramót Unglinga sem er á næsta ári.

Stigabikar Sundssambandsins, sem veittur er fyrir mestu framfarir milli meistaramóta, hlaut Sindri Snævar Friðriksson í SH. Sundhallarbikarinn svokallaða féll Erni Arnarsyni ÍRB í skaut, fyrir besta afrek sem unnið er á hverju ári í Sundhöllinni, en hann vann til fjögurra gullverðlauna á mótinu. 

Hér má finna úrslit úr keppninni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024