ÍRB liðið er að þroskast
Á heimasíðu Keflavíkur er frétt þar sem þeirri gagnrýni um að ÍRB sé einungis skipað ungum sundmönnum er svarað. „Þó ekki sé líklegt að hér verði nokkurntíman stórt lið eldri sundmanna þar sem hér eru færri tækifæri í námi en í stærri bæjum, sýndi ÍRB mikinn styrk á UMÍ og það er alveg ljóst að liðið okkar er að þroskast og eldast vel,“ segir á vefsíðu Keflavíkur. „Í UMÍ liðinu okkar voru 18 sundmenn á aldrinum 15-20 ára og einn yngri sundmaður sem synti í boðsundi. Í ár ákvað SSÍ að leyfa 13-14 ára sundmönnum að synda á mótinu en þau máttu ekki vinna til verðlauna. Við hjá ÍRB ákváðum að hafa fókusinn á eldri krökkunum eins og mótið var hugsað þar sem 13-14 ára hópurinn var að keppa á AMÍ fyrir aðeins 2 vikum,“ segir ennfremur.
Í kjölfar Aldursflokkameistaramóts Íslands í sundi (AMÍ) þar sem sundmenn 15 ára og yngri kepptu hélt unglingalið ÍRB á Unglingameistaramót Íslands (UMÍ) fyrir sundmenn 15-20 ára. ÍRB vann 159 verðlaun, þar af 67 gull á AMÍ.
ÍRB voru sigurvegarar mótsins með 90 verðlaun og þar af 43 gull. Næst á eftir var SH með 49 verðlaun og 14 gull og þar á eftir Fjölnir með 13 verðlaun og 7 gull. ÍRB vann 46% allra verðlauna á mótinu og 62% af gullverðlaunum. Á síðasta ári vann ÍRB aðeins 64 verðlaun en næst á eftir kom SH með 45.
Nánar má lesa um mótið og úrslit hér.