Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • ÍRB í fínu formi í Luxemborg
  • ÍRB í fínu formi í Luxemborg
    Þröstur Bjarnason bætti met Ólympíufarans Antons Sveins Mckee.
Fimmtudagur 13. febrúar 2014 kl. 09:22

ÍRB í fínu formi í Luxemborg

Glæsilegir fulltrúar Reykjanesbæjar

Dagana 6.-10. febrúar ferðaðist hópur 19 sundmanna úr ÍRB ásamt þjálfara sínum Anthony D. Kattan og tveimur fararstjórum til Luxemborgar til þess að taka þátt í Euromeet sundmótinu sem er eitt sterkasta mótið á fyrri hluta sundtímabilsins í Evrópu. Í ár var keppnin á mótinu afar hörð enda margir heimsklassasundmenn að keppa þar eins og til dæmis Katinka Hosszu frá Ungverjalandi og Paul Biederman frá Þýskalandi.

Sundmenn ÍRB sem fóru á mótið þurftu að ná erfiðum lágmörkum til þess að komast með á mótið en þess má geta að lágmörkin voru umtalsvert erfiðari en á Íslandsmót í opnum flokki. Mótið var haldið í hinni glæsilegu laug du Couqe í Luxemborg þar sem aðstaðan og aðbúnaður var til fyrirmyndar. Í ár var metþátttaka á mótinu en keppendur voru rétt tæplega 800 og var kynjaskipting keppenda mjög jöfn. Á mótinu voru meira en 50 lið frá meira en 20 löndum. Langsterkasta liðið var þýska landsliðið með marga góða sundmenn. Verðlaunafé voru tugir þúsunda evra og voru bestu sundmennirnir í fínu formi. Sumir þeirra voru nálægt heimsmetum og á tímum sem eru með þeim bestu á árinu, jafnvel vel yfir 900 FINA stig (heimsmet er 1000 FINA stig).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Góður árangur ÍRB á mótinu

Bestum árangri náði Þröstur Bjarnason í 1500 m skriðsundi. Hann var sjötti í sínum aldursflokki og níundi í opnum flokki með 720 FINA stig og náði hann að bæta íslenska piltametið sem Ólympíufarinn Anton Sveinn Mckee úr Ægi átti. Hann bætti tímann úr 16:19 í 16:14. Með þessum tíma náði Þröstur lágmarkinu með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramót unglinga í sumar.

Þröstur var ekki eini sundmaður ÍRB sem náði í landslið á mótinu. Íris Ósk Hilmarsdóttir náði einnig lágmarki fyrir Evrópumeistaramót unglina í 200m baksundi með 656 FINA stigum. Tíminn nægði henni til þess að keppa í B úrslitum og var hún sú eina í hópnum sem náði inn í úrslit þar sem hún endaði sjöunda í sínum aldursflokki. Sunneva Dögg Friðriksdóttir var þriðji sundmaðurinn til þess að ná á Evrópumeistaramót unglinga í 800 m skriðsundi og varð hún níunda í aldursflokknum.

Af yngri sundmönnum átti Eydís Ósk Kolbeinsdóttir frábært 800 m skriðsund og vann hún silfur í sínum aldursflokki. Eydís var vel undir lágmarkinu fyrir Norðurlandameistaramót Æskunnar. Hin unga Stefanía Sigurþórsdóttir fylgdi svo á eftir og náði sínu fyrsta landsliðslágmarki í sömu grein og Eydís og endaði hún fjórða í aldursflokknum. Gunnhildur Björg Baldursdóttir náði líka sínu fyrsta landsliðslágmarki á sama mót í 200 m flugsundi og varð hún fjórða í sínum aldursflokki.

Aðeins 20 lið fengu að keppa í 4x50 blönduðu boðsundi. Lið ÍRB, þau Íris Ósk Hilmarsdóttir, Kristófer Sigurðsson, Baldvin Sigmarsson og Sylwia Sienkiewicz áttu tíma sem var nógu góður til þess að fá að vera á meðal þessara 20 liða og enduðu þau í 18 sæti.

Allir sundmenn ÍRB voru að bæta tímana sína og verður áhugavert að fylgjast með þessu unga sundliði í framtíðinni. Hér að neðan má sjá nokkrar skemmtilegar myndir frá ferðinni.

Gunnhildur Björg Baldursdóttir  ásamt Paul Biedermann heimsmethafa.

Guðrún Eir Jónsdóttir og Sunneva Dögg Friðríksdóttir með Katinka Hosszu heimsmethafa.

Landsliðsfólk ÍRB: Stefanía, Eydís, Þröstur, Sunneva og Gunnhildur.

Íris Ósk Hilmarsdóttir.

Eydís Ósk Kolbeinsdóttir með silfurverðlaun sín.