ÍRB á þriðjung landsliðsmanna í sundi
Sundsamband Íslands hélt um helgina æfingabúðir fyrir landsliðsfólk í sundi. Öllum sundmönnum sem tóku þátt í landsliðsverkefnum 2013-2014 var boðið, en þar á meðal voru 14 sundmenn frá ÍRB af 41 manna hóp.
Byrjað var á sameiginlegum hádegisverði og fyrirlestri þar sem Eyleifur Jóhannsson ræddi við sundfólkið um ýmislegt varðandi íþróttina. Eyleifur sem valinn hefur verið tvö ár í röð þjálfari ársins í Danmörku var staddur hér á landi með sundlið sitt úr Aalborg Svommeklub í æfingabúðum.Eftir fyrirlesturinn tók við æfing í Laugardalslaug með Eyleifi og Jacky Pellerin landsliðsþjálfara.