ÍR-ingum skellt niður á jörðina í Slátur... Toyotahöllinni
Keflvíkingar svöruðu kallinu. Þeir mættu til leiks og völtuðu yfir ÍR 106-73. Eftir tvo dapra leiki í undanúrslitum gegn ÍR var allt annað Keflavíkurlið sem mætti til leiks í kvöld en það lið sem lék í Toyotahöllinni í kvöld er sama lið og margir sögðu að myndi vinna þetta Íslandsmót. Tommy Johnson vaknaði af værum blundi, Jón N. Hafsteinsson fór á kostum sem og Þröstur Leó Jóhannsson og í reynd allt Keflavíkurliðið. Strákarnir úr bítlabænum léku sem lið og mynduðu sprungu í rammgirta stíflu ÍR-inga. Hershöfðinginn Nate Brown reyndi allt hvað hann gat til að hafa leikinn í sínum höndum en Keflvíkingar hrifsuðu til sín stjórnartaumana og lækkuðu Brown í tign.
Tommy Johnson hóf leikinn á varamannabekknum og það réttilega eftir afleita frammistöðu í síðustu leikjum. Vígamaðurinn Gunnar Einarsson tók hans sæti í byrjunarliðinu og þessi umskipti virtust hafa hvetjandi áhrif á Tommy sem kom fljótt inn í leikinn og hóf strax að láta að sér kveða. Liðin mætast svo í fjórða sinn á sunnudag í Hellinum í Breiðholti kl. 17:00 en staðan í einvíginu er 2-1 fyrir ÍR og geta þeir með sigri á sunnudag tryggt sig inn í úrslitin.
Keflvíkingar gerðu sjö fyrstu stig leiksins í kvöld en Nate Brown kom sínum mönnum inn í leikinn þegar tvær og hálf mínúta voru liðnar. Ljóst var frá fyrstu mínútu að heimamenn ætluðu ekki að láta rassskella sig að nýju og hvað þá frammi fyrir nánast fullri Toyotahöllinni. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 21-12 fyrir Keflavík og vörn heimamanna var þétt og grimm.
Hrollur fór eflaust um einhverja Keflvíkinga þegar spútniklið ÍR hóf að saxa á forskot heimamanna og náðu að minnka muninn í 33-30 með þriggja stiga körfu frá hinum margreynda Eiríki Önundarsyni. Annað kom þó á daginn og með glæsilegum lokaspretti í fyrri hálfleik komust Keflvíkingar í 51-37 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Gunnar Einarsson lagði línurnar fyrir síðari hálfleik þegar hann setti niður flautuþrist í öðrum leikhluta og Keflvíkingar fóru því á eldflaugabensíni inn í búningsklefa.
Hreggviður Magnússon var ekki kominn á blað í hálfleik í liði ÍR og gestirnir fjarri sínu besta enda tókst Keflavík að hrinda þeim úr sínum leik. Keflvíkingar þéttu teiginn og léku mun betri maður á mann vörn en sést hefur til þeirra í úrslitakeppninni. Af þeim sökum tókst þeim að halda leyniskyttum eins og Steinari Arasyni í aðeins tveimur stigum í kvöld.
Sama hvað ÍR-ingar reyndu í síðari hálfleik þá gekk hvorki né rak hjá þeim og allir þeir sem komu inn af bekknum hjá Keflavík voru klárir í slaginn. Enginn var þó meira uppveðraður en Þröstur Leó Jóhannsson sem barðist af miklum krafti og gerði 11 stig í kvöld ásamt því að taka 6 fráköst. Magnús Gunnarsson kom muninum í 20 stig með þrist og staðan 70-50 en Þröstur Leó bauð upp á flautuþrist og breytti stöðunni í 81-66.
Snemma í fjórða leikhluta minnkaði Hreggviður Magnússon muninn í 84-71 en þar skildu leiðir svo um munaði. Eftir þennan þrist hjá Hreggviði gerðu ÍR-ingar aðeins tvö stig til viðbótar í leiknum gegn 22 frá Keflavík. Heimamenn burstuðu fjórða leikhluta 25-7 og fögnuðu ákaft í leikslok.
Arnar Freyr Jónsson gerði 4 stig í kvöld en var naskur á að finna samherja sína enda með 13 stoðsendingar. Félagi hans Jón N. Hafsteinsson gerði 18 stig og hitti úr öllum 7 teigskotum sínum í kvöld og þeir Bobby Walker (22 stig) og Tommy Johnson (23 stig) voru mun líflegri en undanfarið. Sigur Keflavíkur kom ekki að kostnaðarlausu þar sem Anthony Susnjara fékk högg á vinstri fót í síðari hálfleik og lék ekki meira með. Ekki er vitað að svo stöddu hvort um alvarleg meiðsli sé að ræða. Þá setti Magnús Þór Gunnarsson einnig niður stórar körfur sem kveiktu í Keflvíkingum sem í fyrsta sinn í seríunni léku sem lið, ekki sem einstaklingar.
Hjá ÍR var Nate Brown með 18 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en lykilmenn á borð við Hreggvið voru ekki að ná sér á strik og gerði hann aðeins 6 stig í kvöld enda tekinn föstum tökum við hvert tækifæri af Keflavíkurvörninni. Tahirou Sani gerði 17 stig og var með 9 fráköst og Sveinbjörn Claessen var með 14 stig.
Hvort ÍR-ingar hafi mætt of kokhraustir til leiks skal ósagt látið en Keflvíkingar sýndu hvað í þeim býr og verður fróðlegt að sjá hvort þeir nái að halda dampi í Hellinum á sunnudag. Að öðrum kosti geta þeir heimsótt ferðaskrifstofurnar.
VF-Myndir/ [email protected] – Þröstur Leó Jóhannsson var líflegur í kvöld. Á neðri myndinni sést að stuðningsmenn Keflavíkur voru vel með á nótunum.