Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

ÍR aðeins annað liðið til að sækja sigur í Keflavík
Sunnudagur 6. apríl 2008 kl. 22:42

ÍR aðeins annað liðið til að sækja sigur í Keflavík

Er gamla stórveldið komið á fætur? Spurning sem margir körfuknattleiksunnendur velta fyrir sér þessa dagana þegar ÍR-ingar hnykkla á sér vöðvana. ÍR er sigursælasta körfuknattleikslið landsins sem á 15 Íslandsmeistaratitla að baki. Nú hafa þeir slegið út Íslandsmeistara KR og hafa 1-0 yfir gegn deildarmeisturum Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta. Keflavík og ÍR mættust í Toyotahöllinni í kvöld þar sem ÍR fór með magnaðan 87-92 spennusigur af hólmi. Nate Brown tryggði ÍR inn í framlengingu með flautukörfu í teignum og gestirnir úr Breiðholti reyndust sterkari á endasprettinum.
 
Rúmlega 1000 manns mættu í Toyotahöllina til að fylgjast með þessum fyrsta leik liðanna og var stemmingin í húsinu mögnuð. Gestirnir voru beittari til að byrja með og komust í 2-10 en þá tóku Keflvíkingar leikhlé og komu grimmir úr ræðu Sigurðar Ingimundarsonar. Heimamenn jöfnuðu metin í 12-12 og Sigurður Þorsteinsson kom Keflavík yfir 14-12. Leikurinn fór fjörlega af stað og leiddu Keflvíkingar 18-16 eftir fyrsta leikhluta.
 
Bobby Walker var sjóðheitur fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og kom heimamönnum í 24-16 með þriggja stiga körfu. ÍR gekk illa framan af öðrum leikhluta að leysa svæðisvörn Keflavíkur en þeim óx ásmegin og með þriggja stiga körfu frá miðherjanum Ómari Sævarssyni höfðu gestirnir jafnað metin 28-28.
 
Steinar Arason kom sterkur af bekknum hjá ÍR og setti tvo mikilvæga þrista sem kveiktu í ÍR-ingum og leiddu gestirnir 38-42 í leikhléi. Bobby Walker var kominn með 20 stig hjá Keflavík í hálfleik en þeir Hreggviður Magnússon og Ómar Sævarsson voru báðir með 7 stig hjá ÍR.
 
Liðsmenn ÍR voru sjóðheitir í upphafi síðari hálfleiks og skoruðu á skömmum tíma fjóra þrista í röð og komust í 52-59. Arnar Freyr Jónsson reyndi hvað hann gat að berja sína menn áfram í Keflavíkurliðinu og það tókst og Keflvíkingar minnkuðu muninn í 61-63 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Villta Vestrið var við völd í fjórða leikhluta. Hver þriggja stiga karfan rak aðra og Anthony Susnjara var að láta að sér kveða við þriggja stiga línuna og kom Keflavík í 73-69. Við þetta tóku gestirnir leikhlé og um fimm mínútur til leiksloka. Ekki var mikið skorað eftir þetta og börðust liðin af krafti uns aðeins fáar sekúndur voru eftir.
 
Í stöðunni 77-76 er brotið á Arnari Frey Jónssyni og 8 sekúndur til leiksloka. Arnar hélt á línua og skoraði úr öðru vítinu og staðan 78-76 fyrir Keflavík. ÍR tók leikhlé og fékk boltann á miðjum vellinum. Nate Brown brunaði þá inn í teiginn og ÍR létu vaða, brenndu af en Nate Brown náði sóknarfrákastinu og skaut í spjaldið og ofan í og tryggði ÍR inn í framlengingu og taðan því 78-78 eftir venjulegan leiktíma.
 
Magnús Þór Gunnarsson hafði hægt um sig í venjulegum leiktíma en hann gerði sjö fyrstu stig Keflavíkur í framlengingunni. Magnús jafnaði metin í 85-85 og Hreggviður Magnússon farinn af velli með 5 villur hjá ÍR.
 
Tahirou Sani fór mikinn hjá ÍR í kvöld og kom gestunum í 85-87 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Keflvíkingum tókst ekki að jafna metin og í næstu sókn ÍR voru gestirnir sendir á línuna og settu bæði vítin niður og komnir fjórum stigum yfir 85-89 þegar hálf mínúta var eftir.
 
Í næstu Keflavíkursókn mistókst Magnúsi Gunnarssyni að setja niður þrist og því hófst upp leikur þar sem Keflvíkingar reyndu að brjóta og skora snögglega en það gekk ekki eftir og ÍR fór með 87-92 sigur af hólmi.
 
Tahirou Sani var stigahæstur hjá ÍR í kvöld með 19 stig og 8 fráköst en alls voru fimm leikmenn hjá ÍR með 10 stig eða meira í leiknum og tveir gerðu 9 stig. Bobby Walker gerði 25 stig í leiknum en 20 komu í fyrri hálfleik og fór minna fyrir Bobby í þeim síðari. Arnar Freyr Jónsson gerði 18 stig fyrir Keflavík og barðist vel.
 
Með sigrinum varð ÍR aðeins annað liðið á þessari leiktíð til að vinna Keflavík í Toyotahöllinni en það gerðu Njarðvíkingar í deildarkeppninni fyrr í vetur.
 
Liðin mætast svo aftur á miðvikudagskvöld í Seljaskóla kl. 19:15.
 
 
VF-Mynd/ [email protected]  – Arnar Freyr Jónsson átti fínan leik fyrir Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024