Intersport-deildin: Njarðvík tapar fyrir KR, Keflavík nær fram hefndum á ÍR
KEFLAVÍK-ÍR
Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur á botnliði ÍR í Intersport-deildinni í kvöld, 111-79. Þeir náðu þannig að koma fram hefndum fyrir að hafa tapað fyrir ÍR í fyrri umferð deildarinnar í leik sem flestir liðsmenn vildu væntanlega gleyma sem fyrst. Leikurinn í kvöld var annars frekar bragðdaufur en var tryggilega í höndum Keflvíkinga í seinni hálfleik eftir að ÍR höfðu hangið í heimamönnum framan af. Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var bærilega sáttur við leikinn þrátt fyrir að hann hafi ekki verið sérstaklega vel spilaður. „Þetta var bara sæmilegt... þetta var ekki frábær leikur en sigur er alltaf sigur.“
Fannar Ólafsson, sem gekk nýlega aftur til liðs við Keflavík eftir dvöl í Bandaríkunum, lék sinn fyrsta leik í kvöld og átti góðan leik þar sem hann skoraði 17 stig. Þátttöku hans lauk því miður þegar hann fór úr fingurlið undir leikslok, en hann verður væntanlega búinn að ná sér fyrir bikarleikinn gegn Grindavík á laugardaginn.
Derrick Allen var stigahæstur Keflvíkinga með 22 stig og 13 fráköst, en Gunnar Einarsson var með 18 stig. Eugene Christopher fór fyrir ÍR-ingum og skoraði 22 stig.
KR-NJARÐVÍK
Njarðvíkingar töpuðu illa gegn KR Í DHL-höllinni í kvöld, 94-89. Njarðvíkingar höfðu ágætt tak á KR-ingum það sem af er vetri en þeir slógu Vesturbæinga út í báðum bikarkeppnum og unnu einnig fyrri leik liðanna í deildinni. Þeir áttu þó dapran leik í kvöld sem einkenndist af einbeitningarleysi, sérstaklega í sókninni þar sem þeir töpuðu langtum fleiri boltum en eðlilegt þykir á þeim bænum.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur, var ekki ánægður með leik sinna manna eins og gefur að skilja. „KR voru voru bara grimmari. Þetta var slappur leikur almennt hjá okkur í kvöld, en strákarnir voru að gera sig seka um byrjendamistök, sérstaklega í sókninni. Það vantaði uppá einbeitninguna, en ætli þeir hafi ekki verið með hugann við bikarleikinn um helgina.“
Josh Murray átti stórleik og skoraði 44 stig og tók 18 fráköst fyrir KR, en Trevor Diggs kom næstur með 14.
Brandon Woudstra skoraði 24 stig fyrir Njarðvík og Friðrik Stefánsson skoraði 20 ásamt því að taka 11 fráköst. Páll Kristinsson skoraði 16 stig og tók 10 fráköst.
Að leikjunum loknum hefur myndast þéttur hópur fyrir neðan Grindvíkinga þar sem fjögur lið eru nú með 18 stig þ.e. Njarðvík, Keflavík, Snæfell og KR. Snæfell á þó leik til góða gegn Grindvíkingum sem fer fram þann 25. þessa mánaðar.
Þjálfarar Keflavíkur og Njarðvíkur viðruðu ósætti sitt við tímasetningu leikjanna þar sem tvö liðanna sem eru í undanúrslitum bikarkeppninnar léku í kvöld, en hin tvö, Snæfell og Grindavík fá að hvíla sín lið og mæta ferskir til bikarleikjanna.