Intersport-deildin: Njarðvík lagði Grindavík, Keflavík tapar fyrir Hamri
NJARÐVÍK-GRINDAVÍK
Njarðvík batt enda á sigurgöngu Grindvíkinga í Intersport-deildinni í kvöld með öruggum sigri í Ljónagryfjunni, 104-95. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu en Grindvíkingar náðu aldrei að ógna forskoti heimamanna að ráði.
Í fyrsta leikhluta var engu líkara en að liðin hefðu ekki fengið nóg af flugeldum um áramótin vegna þess að liðin settu upp sannkallaða sýningu og sölluðu niður körfunum. Njarðvíkingar náðu góðum kafla undir lok leikhlutans og höfðu náð 9 stiga forskoti fyrir annan fjórðung, en Grindvíkingar náðu aldrei að vinna þann mun upp. Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði þar sem liðin skiptust á körfum en Njarðvíkingar héldu vörninni vel saman og hleyptu gestunum ekki inn í leikinn.
Grindvíkingar töpuðu þar með sínum fyrsta leik í deildinni, en þeir spiluðu í kvöld með aðeins einn erlendan leikmann, þar sem Daniel Trammel var ekki kallaður aftur úr jólafríinu.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með öruggan sigur og sagði mikinn mun á sínum mönnum frá tapleiknum gegn Tindastóli fyrir jól. „Menn voru að leggja sig alla fram, en þeir skulduðu mér raunar einn leik eftir ófarirnar í síðustu umferð. Núna er þetta allt galopið og okkar menn eru að verða eins og vel smurð vél.“ Fyrirliði Njarðvíkur, Friðrik Stefánsson, tók í sama streng og var ánægður með baráttu sina manna. „Þetta var sigur liðsheildarinnar, kannski ekki fallegasti leikurinn, en þetta hafðist.“
Friðrik Ingi Rúnarsson hjá Grindavík viðurkenndi að Njarðvíkingarnir hefðu unnið verðskuldað en var mjög ánægður með ungu strákana hjá sér, sérstaklega þá Þorleif og Jóhann Ólafssyni. „Sigurgöngunni er kannski lokið“, sagði Friðrik, „en ég ætla að ljúka leiktíðinni á sigri og vinna titilinn. Við hefðum kannski getað komist nær þeim og fengið eitthvað út úr leiknum, en Njarðvíkingar voru gegnheilt betri aðilinn.“
Páll Kristinsson átti stórleik fyrir Njarðvík og skoraði 29 stig, Brenton setti 29 stig og tók 10 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði 17 stig og hitti úr 5 þristum. Friðrik Stefánsson hafði hægt um sig í sókninni lengst af, en kláraði með 15 stig og 12 fráköst.
Páll Axel skoraði 26 fyrir Grindavík og Darrel Lewis 25. Þá átti Þorleifur Ólafsson góðan dag og setti 17 stig og tók 8 fráköst.
Hér má finna tölfræði leiksins
HAMAR-KEFLAVÍK
Keflvíkingar gerðu ekki góða ferð til Hveragerðis þar sem þeir töpuðu 94-91 gegn Hamri. Meistararnir áttu ekki góðan dag í nokkrum skilningi þess orðs og skóf Falur Harðarson, þjálfari þeirra, ekki utan af hlutunum. „Við vorum bara ógeðslega lélegir. Það er oft sagt að enginn spili betur en andstæðingurinn leyfir, en í kvöld leyfðum við þeim að spila mjög vel.“ Hann tók þó fram að Allen og Bradford hefðu staðið sig mjög vel.
Leikurinn var nokkuð jafn lengst af, en heimamenn náðu 10 stiga forustu í seinni hálfleik sem Keflvíkingar náðu ekki að vinna upp. Á síðustu stundu tók Davíð Þór Jónsson þriggja stiga skot sem hefði jafnað leikinn, en það geigaði.
Derrick Allen átti hreint óviðjafnanlegan leik þar sem hann skoraði 36 stig og tók 27 fráköst, en hann var sá eini í Keflavíkurliðinu sem stóð sig í þeim málum. Nick Bradford skoraði 20 stig, og Sverrir Þór Sverrisson kom þeim næstur með 16 stig. Að Allen og Bradford frátöldum hittu Keflvíkingar illa utan af velli, og má telja það ásamt andleysi í varnarleik sem aðalástæður tapsins.
Chris Dade skoraði 25 stig fyrir Hamar og tók 9 fráköst, en Hallgrímur Brynjólfsson var með 17 stig. Faheem Nelson átti einnig góða innkomu fyrir Hamrana og skoraði 11 stig og gaf 10 stoðsendingar sem er þriðjungur þess sem hann hefur gefið á öllu tímabilinu.
Hér má finna tölfræði leiksins
Að umferðinni lokinni er Grindavík enn í toppsætinu með fjögurra stiga forskot á Njarðvík sem er í öðru sætinu ásamt Snæfelli. Keflavík er tveimur stigum á eftir þeim í 4.-5. sæti ásamt KR.
VF-mynd/Hilmar Bragi Bárðarson