Intersport-deildin: Keflavík vann Hauka
Keflavík vann sigur á Haukum á heimavelli sínum við Sunnubraut, 93-78. Með sigrinum komst Keflavík upp að hlið Njarðvíkur og Snæfells í öðru til fjórða sæti deildarinnar.
Leikurinn var jafn framan af og Keflavík leiddi með þremur stigum í hálfleik, 44-41, eftir að 3ja stiga skot Magnúsar Þórs datt ofan í um leið og flautan gall. Í seinni hálfleik komust meistararnir í gang og kláruðu leikinn með sóma.
Falur Harðarson var ánægður með sigurinn í kvöld, en eins og körfuknattleiksáhugamenn vita, eru Keflvíkingar nýkomnir heim úr erfiðu keppnisferðalagi í Portúlgal. „Við vorum ekki búnir að hafa æfingu frá því að við komum heim á aðfaranótt föstudags heldur mættum beint í leikinn. Ég er bara ánægður með að við höfum klárað leikinn og náð í stigin. Það er það eina sem skiptir máli.“
Nick Bradford var stigahæstur Keflvíkinga með 28 stig og tók 10 fráköst. Gunnar Einars kom sterkur inn og setti 19 og Derrick setti einungis 17 stig, en hann var mikið utan vallar vegna villuvandræða. Michael Manciel átti stórleik með Haukum og skoraði 44 stig og tók 18 fráköst.
Tölfræði leiksins má finna hér